Home / Fréttir / Nýja nafnið á Makedóniu samþykkt á þingi

Nýja nafnið á Makedóniu samþykkt á þingi

 

880x495_cmsv2_9c0ad49c-7027-5f86-b7de-7ee1b85e24c1-3579312

Þingmenn í Makedóníu samþykktu föstudaginn 11. janúar að breyta nafni lands síns í Lýðveldið Norður-Makedónía og bundu þannig enda á langvinna deilu við nágrannaþjóðina Grikki.

Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, sagði að samþykkt þingsins mundi „opna dyr til framtíðar, til evrópskrar framtíðar Makedóníu“.

Forsætisráðherranum tókst að fá tvo þriðju þingmanna til að styðja nafnbreytinguna en áður var landið nefnt Fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía (FYROM)

Stjórnir Grikklands og Makedóníu sömdu um nýja nafnið í fyrra. Samningurinn verður nú lagður fyrir gríska þingið.

Hérað í Norður-Grikklandi heitir Makedónía. Töldu ýmsir Grikkir að greina yrði á milli nafnanna meðal annars vegna þess að þeir eigna sér Alexander mikla og Makedóníu hans.

Vegna andstöðu Grikkja hefur Makedóníumönnum margsinnis verið neitað um aðild að NATO og ESB.

Í september 2018 var gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um nafnbreytinguna í Makedóníu. Hún var úrskurðuð ógild vegna lítillar þátttöku en 94% þeirra sem tóku þátt studdu samninginn við Grikki.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …