
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Mikið hefur verið fjallað um hlýnun norðurheimskautssvæðisins á undanförnum árum og hvaða áhrif hún muni hafa. Septemberhefti bandaríska tímaritsins National Geographic er að mestu helgað viðfangsefninu. Þar kemur fram að frá því um 1880 hafi hitastig á svæðinu hækkað tvöfalt meira en meðalhiti á jörðinni allri eða um 2 gráður. Síðustu fimm sumur hafa verið þau heitustu á heimskautssvæðinu síðan mælingar hófust. Þiðni stór svæði af sífrera líkt og vísbendingar eru um kann hitinn að hækka enn frekar. Hlýrra loftslag mun hafa mikil áhrif á svæðið. Þannig mun lífríkið breytast til muna. Tekin eru dæmi af því að snjóþrúguhérar, gaupur, elgir og bjórar sjáist nú á norðlægari slóðum en áður hafi þekkst. Meginbreytingin verður þó á heimskautsísnum. Haldi svo áfram sem horfir mun hann minnka mikið á næstu árum og svo kann að fara að heimskautið verði íslaust á sumrin innan tveggja áratuga.
Aukin samkeppni
Þegar ísinn hörfar mun það hafa mikil áhrif á ríkin sem liggja að svæðinu. Þannig mun skipaumferð um svæðið aukast til muna og auðveldara verður fyrir nálæg ríki að ná í verðmæt jarðefni sem talið er að mikið sé til af á þessum slóðum.
Ríki eru misvel í stakk búin til þess að bregðast við breyttu landslagi á norðurslóðum. Rússar riðu á vaðið árið 2007 þegar þeir sendu smákafbát til Norðurskautsins til þess að koma þar fyrir rússneska fánanum. Áhugi Rússa á svæðinu kemur að hluta til af því að efnahagur landsins byggir á vinnslu á jarðefnum. Talið er að þær olíu- og gaslindir sem Rússar geti nýtt í framtíðinni sé að mestu að finna í Barentshafi og Karahafi. Einnig verður að hafa í huga að um tvær milljónir Rússa búa á þessum slóðum og þar eru fjölmennar borgir líkt og Múrmansk. Aðgerðir Rússa á norðurhjara snúast þó ekki aðeins um efnahagslega velsæld og félagsleg málefni. Þeir hafa líka eflt herafla sinn á svæðinu. Þessa dagana eru rússneskar herflugvélar t.d. reglulega óboðnir gestir í lofthelgi þeirra NATO ríkja sem liggja norðarlega á hnettinum þ.á m. Íslands. Kafbátaumferð Rússa í norðurhöfum hefur líka aukist til muna.
Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og innlimuðu Krímskaga árið 2014 hafa samskipti þeirra við NATO ríkin verið afar stirð. Spenna kann því að magnast á norðurslóðum ekki síst vegna þess að ekki er búið að útkljá eignarrétt yfir öllu þessu svæði. Vesturveldin eru afar illa í stakk búin til þess að takast á við deilur um svæðið. Fyrir utan Noreg hafa þau sýnt þessu svæði lítinn áhuga. Má nefna Bandaríkin og Kanada í þessu sambandi. Þau ráða samanlagt yfir um helmingi strandlengjunnar við norðurheimskautið en hvorugt ríkið hefur sinnt svæðinu mikið í gegnum tíðina. Sem dæmi má nefna að farsímasamband í Nunavut héraði í Kanada sem er þrefalt stærra en Texasfylki er lélegt. Því þarf ekki að koma á óvart að sé styrkur Rússa og Bandaríkjamanna á norðurslóðum borinn saman hafa þeir fyrrnefndu vinninginn. Nefna má að Rússar eiga 51 starfhæfan ísbrjót en Bandaríkjamenn aðeins fimm. Herstöðvar Rússar eru fjölmargar en Bandaríkjamenn hafa aðeins eina. Þeir virðast þó vera að gera sér betri grein fyrir mikilvægi heimskautsins. Þannig sat Mike Pompeo utanríkisráðherra fund Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) í maí síðastliðnum [og flutti ræðu fyrir hann sem vakti heimsathygli vegna þess hve harðorður ráðherrann var í garð Kínverja]. Áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum er þó enn sem komið er fálmkenndur (líkt og nýleg hugmynd Donald Trumps forseta um að kaupa Grænland ber með sér, innskot höfundar).
Hlutverk Íslands
Lestur greinarinnar í National Geographic vekur upp spurningar um stöðu Íslands í breytingaferlinu sem á sér stað á norðurslóðum. Þar sem landið liggur ekki við Norðurheimskautið mun þeir ekki taka beinan þátt í þeim verkefnum sem eru í bígerð. Vegna landfræðilegrar legu landsins hafa breytingarnar þó hafa umtalsverð áhrif hér. Ljóst er að NATO ríkin og þá sérstaklega Bandaríkin muni sýna Íslandi meiri áhuga á næstu árum vegna þess að héðan er hægt að fylgjast með hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum. Einnig má nefna áætlanir um stórskipahöfn í Finnafirði á Austurlandi sem myndi þjónusta skipaumferð á norðurslóðum. Síðast en ekki síst má gera ráð fyrir því að álag á íslenskar björgunarsveitir verði meira þegar umferð til íshafsins eykst. Veður eru válynd í norðurhöfum og slys geta átt sér stað m.a. á farþegaskipum með þúsudir manna um borð. Því verður að gera ráð fyrir að styrkja þurfi Landhelgisgæsluna enn frekar á næstu árum. Ef hægt væri að fá ríki sem treysta á vel búnar björgunarsveitir í norðurhöfum til að leggja eitthvað af mörkum ætti ekki að útiloka það fyrirfram. Á sama tíma þarf Gæslan að viðhalda góðum tengslum við björgunarsveitir í nálægum ríkjum. Það gerði hún árið 2015 þegar hún var stofnaðili að Strandgæslusamtökum heimskautssvæðisins (e. Arctic Coast Guard Forum) sem í eru átta ríki. Landhelgisgæslan gegnir formennsku í samtökunum á árunum 2019-2020. Af þessu má sjá að Ísland er nú þegar í hringiðu breytinga sem eiga sér stað á heimskautssvæðinu. Við þurfum að vera undirbúin þeim vegna þess að mikið er í húfi fyrir okkur og aðra. Þátttaka í öryggisbandalagi líkt og Atlantshafsbandalaginu auðveldar okkur að takast á við þær breytingar sem aukið mikilvægi norðurslóða í framtíðinni munu bera með sér.