Home / Fréttir / Nýársnótt: Mikill viðbúnaður í stórborgum af ótta við hryðjuverk

Nýársnótt: Mikill viðbúnaður í stórborgum af ótta við hryðjuverk

Hermaður við öryggisgæslu í París.
Hermaður við öryggisgæslu í París.

Mikill viðbúnaður er víða um heim af ótta við hryðjuverk á nýársnótt.

París: Um 11.000 manns verða við öryggisgæslu í höfuðborg Frakklands þar sem lýst var yfir þriggja mánaða neyðarástandi eftir hryðjuverkin í borginni 13. nóvember 2015. Ekki verða neinar flugeldasýningar í París en mannfjölda verður leyft að koma saman á breiðgötunni Champs-Élysées þar sem verður ljósasýning við Sigurbogann í 10 mínútur 23.50 til miðnættis (22.50 til 23.00 að íslenskum tíma). Verða 1.600 lögreglumenn við störf á Champs-Élysées. Anne Hidalgo borgarstjóri segir að ákveðið hafi verið að heimila mannsöfnuð við Sigurbogann þrátt fyrir neyðarástandið til að sýna umheiminum að Parísarbúar láti ekki beygja sig.

Brussel: Lögreglan handtók fyrir fáeinum dögum tvo einstaklinga sem grunaðir voru um að undirbúa árás í belgísku höfuðborginni um áramótin. Þar hafa flugeldar ekki aðeins verið bannaðir heldur einnig að fólk komi saman á götum og torgum úti. Yvan Mayeur borgarstjóri segir samkomubannið reist á hættumati.

Berlín: Í höfuðborg Þýskalands verður flugeldasýning en til þess að komast inn í miðborgina verða menn að fara um eitt af sex hliðum á öryggishindrunum sem komið hefur verið umhverfis hjarta borgarinnar. Þeir sem fara inn á svæði milli Brandenborgarhliðsins og Siegessaüle verða að fara fram hjá öryggisvörðum sem skoða í töskur eða annað sem menn hafa meðferðis. Enginn má vera með flugelda, stórar töskur eða glerflöskur.

Vín: Lögreglan hefur gripið til sérstakra öryggisráðstafana í höfuðborg Austurríkis. Lögregluyfirvöld þar skýrðu einmitt frá því fyrir nokkrum dögum að „vinveitt leyniþjónusta“ hefði miðlað upplýsingum um yfirvofandi hættu í nokkrum evrópskum höfuðborgum milli jóla og nýárs. Ekki hefur verið lagt bann við neinum opinberum samkomum í Austurríki.

Madrid: Í höfuðborg Spánar verða settar skorður við aðgengi að hinu fræga torgi Puerta del Sol. Bannað er að fleiri en 25.000 komi þar saman þótt torgið rúmi 75.000 manns. Allir skulu hafa yfirgefið torgið kl. 01.30 á nýársnótt.

Moskva: Rauða torgið í höfuðborg Rússlands verður lokað almenningi á nýársnótt. Löng hefð er fyrir því að fólk komi saman á torginu og fagni nýju ári og hefur það ekki áður verið lokað almenningi. Efnt verður til útitónleika á torginu fyrir fáeina útvalda en bein útsending verður frá þeim á rás eitt í ríkissjónvarpinu.

London: Í höfuðborg Bretlands hafa öll leyfi lögreglumanna verið afturkölluð vegna öryggisgæslu um áramótin og þar verða meðal annars 2.000 vopnaðir lögreglumenn við störf. Hefur aldrei verið gripið til sambærilegra öryggisráðstafana vegna áramótanna í borginni. Boris Johnson borgarstjóri hvetur fólk til að fagna á götum úti og ekki láta ótta ná tökum á sér. Efnt verður til flugeldasýninga við bökkum Thames-ár og nær fögnuðurinn hámarki þegar klukkur Big Ben í turni breska þinghússins slá 12.00 á miðnætti.

New York: Hefð er fyrir að mikill fjöldi fólks komi saman á Times Square á Manhattan á nýársnótt og verður svo einnig nú en löggæsla verður stóraukin til varnar gegn hryðjuverkum. Um 6.000 lögreglumenn verða þar við störf eða í nágrenni torgsins. Eftir árásina í París sýndu áróðursmenn Ríkis íslams ógnandi myndbönd með myndum frá New York og þar á meðal Times Square.

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …