Home / Fréttir / Ný-valdahyggja Pútíns fyrirmynd í Evrópu og jafnvel hjá Donald Trump

Ný-valdahyggja Pútíns fyrirmynd í Evrópu og jafnvel hjá Donald Trump

Vladimir Pútín
Vladimir Pútín

 

Í þýska blaðinu Die Welt birtist miðvikudaginn 30. mars grein eftir Richard Herzinger sem ritar um stjórn- og samfélagsmál í blaðið. Hann fjallar þar um stöðu og stjórnarhætti Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sem hann segir að höfði til þeirra á Vesturlöndum sem þrái „hinn sterka mann“.

Blaðamaðurinn segir að Pútín setji mikinn svip á alla umræðu og fréttir um alþjóðamál og staða hans á alþjóðavettvangi styrkist vegna sundurlyndis og hugsjónaskorts á Vesturlöndum. Ekki sé nóg með það heldur njóti ný-valdahyggja  hans vaxandi hjómgrunns í vestrænum samfélögum.

Herzinger segir að bæði fyrirvaralaus ákvörðun Pútíns um að senda her til Sýrlands og um að draga hann að hluta til baka hafi einkennst af óskoruðu valdi Pútíns. Hann fari sínu fram án tillits til annarra. Hann hafi haft að engu að ekki hefði verið samið um frið í Sýrlandi og hann sendi einfaldlega herlið þangað aftur þyki honum friðarviðræðurnar ganga í ranga átt til dæmis með því að stjórn Assads Sýrlandsforseta sé ógnað. Staðan sé í raun sú að Bandaríkjamenn og Evrópumenn hafi fyrir löngu sætt sig við að Assad hafi að minnsta kosti hluta Sýrlands á valdi sínu og þar með hefðu Rússar fótfestu þar ásamt bandamönnum sínum, Írönum.

Enginn finni að því þótt hermenn Pútíns hafi beitt vopnum sínum gegn almennum borgurum í Sýrlandi. Pútín sé ekki krafinn reikningsskila vegna þessa frekar en vegna framgöngu sinnar í Austur-Úkraínu. Þar standi feluliðsmenn Pútíns í stríði en á Vesturlöndum trúi menn goðsögninni um vopnahlé.

Vladimír Pútín leikur þann leik að mati þýska blaðamannsins að telja Vesturlandabúum trú um að hann tryggi lausn á vandamálum sem hann hafi sjálfur skapað eða megi að minnsta kosti rekja til krafna hans. Hann hafi gefið fyrirmæli um miklar sprengjuárásir á almenn borgara í Sýrlandi þegar flóttamannavandinn varð sífellt alvarlegra vandamál fyrir evrópska stjórnmálamenn og ESB. Fyrir bragðið vildu ráðamenn á Vesturlöndum leggja sig fram um að mæta öllum skilyrðum sem Rússar settu til að stöðugleiki kæmist á í Sýrlandi svo að hægði á flóttamannastraumnum.

Hið sama megi segja um Úkraínu. Þar leiði Minsk-friðarsamkomulagið til þess að ekki sé litið á Pútín sem þann árásaraðila sem hann er heldur samstarfsmann í þágu stöðugleika. Þetta leiði til þess að innan ESB vaxi þeirri skoðun fylgi að næsta sumar eigi að afnema efnahagsþvinganir gegn Rússum.

Þá segir í greininni í Die Welt að samhliða þessu stuðli Rússar að óstöðugleika innan ESB með því að styðja öfgamenn til hægri og þjóðernissinnaða lýðskrumara, já jafnvel beinlínis ný-nazista. Þótt róttækir vinstrisinnar segist berjast gegn fasistum hverju nafni sem nefnist ali þeir á hefðbundinni andúð á Bandaríkjunum og gangi þannig á sinn hátt erinda Pútíns. Vissulega sé ekki unnt að kenna Pútín um að öfgasjónarmið nái fótfestu í Evrópu, fyrir hans tíma hafi verið leitað að hinum sterka manni í Evrópu, þráin eftir honum hafi til dæmis birst í vinsældum Silvios Berlusconis á sínum tíma.

Blaðamaðurinn telur þó varla hugsanlegt að svo margir aðhylltust mikið vald á einni hendi í Evrópu eins og nú sé án þess að hafa Pútín sem fyrirmynd. Aðdáunar á Pútín gæti einnig í Bandaríkjunum eins og sjá megi á lofsyrðum Donalds Trumps um hann. Þar sé því miður ekki aðeins um neðanmálsgrein við hina einkennilegu og ógnvænlegu kosningabaráttu hans að ræða. Undir lok greinarinnar segir Richard Herzinger:

„Að Trump samsami sig með ný-valdhyggjunni jafngildir ekki öðru en höfnun á almennum grundvallargildum Bandaríkjanna sem ekki hafa aðeins skapað þeim einstæða stöðu á sviði stjórnmála, efnahagsmála og hermála heldur fyrst og fremst sem kjörins forysturíkis hins frjálsa heims. Í upphrópunum sínum um utanríkismál tileinkar Trump sér valdarökin að baki rússnesku stórveldishugsjóninni þar sem alþjóðlegur styrkur ríkis er metinn eftir því hve mikinn ótta máttur þess vekur – meðal vina og óvina. Framkvæmdi hann áform sín um að draga mjög úr stuðningi Bandaríkjanna við bandamenn sína í Evrópu og Asíu og að þeir stæðu að verulegu leyti undir kostnaði við framlag Bandaríkjanna mundi það valda uppnámi í NATO og öðrum alþjóðasamtökum þar sem Bandaríkin hafa forystu. Engan þarf að undra að  rússneskir fjölmiðlar sem standa nærri Kremlverjum beri lof á Trump.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …