Home / Fréttir / Ný þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna leiðir til „kappsamari þátttöku“ þeirra á alþjóðavettvangi

Ný þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna leiðir til „kappsamari þátttöku“ þeirra á alþjóðavettvangi

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Bandaríkjastjórn kynnir nýja þjóðaröryggisstefnu mánudaginn 18. desember. Markmið hennar er að tryggja sömu skipan heimsmála og ríkt hefur frá síðari heimsstyrjöldinni þrátt fyrir tilraunir Rússa og Kínverja til að kollvarpa henni segir í frétt fréttastofunnar Voice of America (VOA) þriðjudaginn 12. desember.

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps, segir að nýja stefnan sé reist á „friði í krafti styrks“ til að vinna að hagsmunum Bandaríkjanna erlendis. Hann áréttaði að samstarf við hefðbundna bandamenn Bandaríkjamanna mundi vega þungt í stefnu stjórnarinnar.

„Við verðum að vinna saman af meiri þunga en nokkru sinni til að tryggja að þjóðir gæti lagar og réttar, virði fullveldi nágranna sinna og styðji kerfi friðar, stöðugleika og sameiginlegs öryggis sem varð til eftir síðari heimsstyrjöldina og kalda stríðið,“ sagði McMaster þriðjudaginn 12. desember.

McMaster sló á ótta um að stefna Donalds Trumps um Bandaríkin í fyrsta sæti mundi leiða til brotthvarfs Bandaríkjastjórnar af alþjóðavettvangi. Hann sagði að í nýju stefnunni fælist gagnstæð afstaða, hún leiddi til þess að Bandaríkjamenn sneru sér að alþjóðamálum á markvissari og sókndjarfari hátt en áður.

„Í mörgu tilliti drógum við okkur í hlé á mörgum samkeppnissviðum á undanförnum árum og sköpuðum tækifæri fyrir ríki endurskoðunarsinna,“ sagði McMaster og vísað á þann veg til stjórnarherranna í Moskvu og Peking. „Menn munu sjá mikla áherslu á kappsama þátttöku – kappsama þátttöku á sviðum sem við kennum við samkeppni.“

VOA segir að mánuðum saman hafi embættismenn Trumps unnið að mótun þjóðaröryggisstefnunnar og hennar sé víða með með eftirvæntingu. McMaster sagði að fjórar meginstoðir einkenndu lokaskjalið: vernd Bandaríkjanna sjálfra; efling hagsældar Bandaríkjanna og efnahagslegs öryggis; öflugri, fjölhæfari herafli og aukin bandarísk áhrif.

Við skilgreiningu á hættum sem að steðja eru til dæmis dregin skil á milli áhrifa ríkja eins og Rússlands og Kína og svonefndra hamslausra ríkja eins og Írans og Norður-Kóreu.

McMaster nefndi Rússa sérstaklega og sagði þá ógna Bandaríkjunum með „svonefndum ný-kynslóðar hernaði“. Með orðunum vísaði hann til greiningar og mats bandarískra leyniþjónustustofnana á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar árið 2016.

„Hér er um háþróaðar aðgerðir að ræða sem reistar eru á undirróðri og upplýsingafölsunum og áróðri með því að nota tæki ríkisins gagnvart net-lénum um víða veröld til að ala á sundrung milli hópa innan þjóða okkar og etja þeim hverjum gegn öðrum,“ sagði McMaster.

Hann gagnrýndi Kínverja fyrir það sem hann kallaði „efnahagslega árásarstefnu“.

„[Kínverjar] vega að regluverki efnahagskerfisins sem stuðlaði að því að hundruð þúsunda manna losnuðu úr fjötrum fátæktar,“ sagði McMaster.

Hann hét því að Bandaríkjamenn mundu leggja sitt af mörkum til að svara skotgrafahernaði Íransstjórnar í Sýrlandi og Mið-Austurlöndum auk þess að standa fast gegn því að hún eignaðist kjarnorkuvopn.

Þá er í þjóðaröryggisstefnunni lögð áhersla á baráttuna gegn  hryðjuverkamönnum og samtökum þeirra. Taldi McMaster að stefna ríkisstjórnar Obama gegn hryðjuverkamönnum hefði verið „of þröngsýn“.

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …