Home / Fréttir / Ný stjarna í frönskum stjórnmálum stefnir í forsetastólinn

Ný stjarna í frönskum stjórnmálum stefnir í forsetastólinn

Emmanuel Macron
Emmanuel Macron

Emmanuel Macron er 39 ára fyrrverandi bankastarfsmaður sem gæti orðið næsti forseti Frakklands.

Macron sagði af sér sem efnahagsmálaráðherra Frakklands í ágúst 2016 til að helga sig stjórnmálum á eigin forsendum og í eigin flokki En Marche! – Áfram!.

Hann tilkynnti í nóvember 2016 að hann byði sig fram sem forseti Frakklands í kosningunum 23. apríl 2017, undir merkjum Áfram! – mið-vinstri flokks.

Snemma í desember 2016 jókst fylgi hans af alvöru í skoðanakönnunum og þúsundir manna tóku að sækja kosningafundi hans.

Í liðinni viku fékk hann í fyrsta sinn meiri stuðning í könnunum en François Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins, mið-hægri flokksins.

Innan franska sósíalistaflokksins ríkir kreppa og forsetaframbjóðandi hans verður Benoît Hamon af vinstri væng flokksins sem sigraði Manuel Valls forsætisráðherra í prófkjöri, um 60% á móti um 40%.

François Fillon á mjög undir högg að sækja vegna ásakana um að hann hafi misfarið með opinbert fé með því að láta greiða konu sinni laun fyrir aðstoðarmannsstörf sem hún hafi aldrei unnið og sama gildi um tvö barna þeirra hjóna. Líkur eru á að Fillon dragi sig í hlé.

Væntanlegir kjósendur Macrons koma bæði frá vinstri og hægri megi marka kannanir. Hann hefur ekki enn lagt fram neina heildstæða stefnuskrá. Fólk lýsir yfir stuðningi við hann vegna framgöngu hans en segist bíða með að ákveða hvort það kýs hann þar til hann hafi kynnt stefnu sína. Hann þykir skilgreina vanda Frakka vel en hefur ekki kynnt hvernig hann ætlar að taka á vandanum.

Macron hefur haldið geysifjölmenna kosningafundi í París, Clermont Ferrand, Lille og Lyon laugardaginn 4. febrúar. Þar gekk sósíalistinn Gérard Collomb, borgarstjóri Lyon, fram fyrir skjöldu og lýsti stuðningi við Macron eins og fleiri kunnir stjórnmálamenn og stórir kaupsýslumenn hafa tekið til við að gera.

Collomb borgarstjóri sagði: „Við erum ekki blaðra sem allt í einu springur heldur bylgja sem nær til alls Frakklands.“

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …