Home / Fréttir / Ný skýrsla: Trúverðugleiki NATO ræðst í Eystrasaltsríkjunum

Ný skýrsla: Trúverðugleiki NATO ræðst í Eystrasaltsríkjunum

EdwardLucas
EdwardLucas

Bandaríska hugveitan Center for European Policy Analysis (CEPA) hefur gefið út skýrsluna The Coming Storm –Væntanlegt ofviðri – eftir Edward Lucas, heimskunnan blaðamann og rithöfund sem sendi meðal annars frá sér bókina The New Cold War árið 2008. Í skýrslunni fjallar hann um stöðu öryggismála á Eystrasalti og Norður-Evrópu nefnir hann til sögunnar níu ríki: Norðurlöndin fimm, Eystrasaltsríkin þrjú og Pólland og kallar þau NBP9. Hann segir ríkin standa frammi fyrir sameiginlegum og svipuðum vanda vegna endurvígbúnaðar í Rússlandi og ágengari stefnu rússneskra stjórnvalda.

Í skýrslunni rekur Lucas dæmi um ögrandi aðgerðir Rússa í garð ríkjanna og vekur sérstaka athygli að Rússar hafi sumarið 2014 æft eldflaugaárás á dönsku eyjuna Borgundarhólm þegar þar var efnt til þess sem Danir kalla Folkemødet og er árlegur viðburður með þátttöku forystumanna í stjórnmálum og á öðrum sviðum dansks samfélags. Þegar æfingin var gerð voru um 80.000 manns á eyjunni, þar á meðal danski forsætisráðherrann. „Hefði árásin verið gerð hefðu Danir verið afhöfðaðir,“ segir Lucas.

Þá segir í skýrslunni að í mars 2015 hafi 33.000 rússneskur hermenn tekið þátt í aðgerð þar sem æfð var skyndiárás í Norður-Noreg, á Álandseyjar, sænsku eyjuna Gotland og loks á Borgundarhólm. Í skýrslunni segir: „Heppnist árás af þessu tagi munu yfirráð yfir þessum landsvæðum gera NATO næstum ókleift að auka herstyrk í Eystrasaltslöndunum.“

Lucas segir að utan landanna sem hlut eiga að máli hafi aðrir almennt lítinn áhuga á þessum atvikum eða fleirum sem hann nefnir til sögunnar. Almennt sé enn litið á Norðaustur-Evrópu sem lágspennusvæði þar sem lítil hætta sé á átökum sem raska öllu valdajafnvægi, þar séu góðir stjórnarhættir, pólitískur stöðugleiki og ró. Þetta úrelta, upptendraða viðhorf ráði meira að sega enn á svæðinu sjálfu. Segja megi að viðhorf Rick‘s í kvikmyndinni Casablanca þegar hann segir: „heimsvandamálin eru ekki í minni deild“ einkenni viðhorf margra einkum í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi sem finnist geopólitísk og bein hernaðarleg viðfangsefni gamaldags, þau komi sér ekki við og séu ógeðfelld.

Höfundur segir að menn verði að átta sig á að sá tími sé liðinn að unnt sé að líta á Rússa sem friðsaman samstarfsaðila, ekki sé unnt að kenna Vesturlöndum um þessa breytingu, sökin sé hjá Rússum. Augljóst sé að ráðamenn í Kreml vilji mynda cordon sanitaire  – öryggissvæði – við landamæri sín og þar verði öryggissjónarmið minni ríkja að víkja fyrir vilja hins stóra. Með þessu sé vegið markvisst gegn þeim reglum sem ríki hafi sett um skipan öryggismála í Evrópu: Rússar telji þá skipan mála sem varð eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991 ósanngjarna og vega að hagsmunum sínum.

NBP9-ríkin næst Rússlandi standi frammi fyrir yfirgangssömu ríki sem ráði yfir afli og vilja til að ná markmiðum sínum, eins og málum sé háttað hafi þau ekki ein afl til að verjast þessum yfirgangi. Þau skorti fjárhagslega burði mannauð, þekkingu og hernaðarmátt til að tryggja öryggi á þessu svæði. Hins vegar hafi Evrópumenn almennt ekki mikinn áhuga á öryggi NBP9-ríkjanna. Forystumenn stærstu Vestur-Evrópuríkjanna horfi í suður en ekki austur. Þjóðverjar vilji ekki axla skuldbindingar sem gætu leitt til hernaðarátaka við Rússa.

Öryggisvandi NBP9-ríkjanna sé hnattrænn, þau séu háð fælingarmætti sem felist í loforðum annarra. Trúverðugleiki NATO og Bandaríkjanna sem evrópsks valdaaðila ráðist af því hvort takist að sýna fram á að tryggja megi öryggi ríkjanna þar sem hættan sé mest: Eistlands, Lettlands og Litháens.

Meginboðskapur skýrslunnar er að verði ekki gerðar ráðstafanir til að auka öryggi á svæðinu sem um er rætt í henni gæti það leitt til þess að NATO, best heppnaða hernaðarbandalag sögunnar, yrði dæmt máttvana jafnvel án þess að hleypt yrði af einu skoti. Hlutverki Bandaríkjanna sem ábyrgðaraðila á evrópsku öryggi til þrautavara lyki á nokkrum klukkustundum.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …