Home / Fréttir / Ný skýrsla: Stórefla verður varnir Dana – hernaðarlegar og borgaralegar

Ný skýrsla: Stórefla verður varnir Dana – hernaðarlegar og borgaralegar

Michael Zilmer-Johns, fyrrverandi fastafulltrúi Dana hjá NATO, formaður sérfræðingahópsins, með skýrsluna 3. okt. 2022.

Danskir sérfræðingar lögðu mánudaginn 3. október 2022 fram skýrslu um hver verði þróun danskra öryggismála til ársins 2035.sNiðurstöður hópsins, sem í átján mánuði hefur unnið að skýrslugerðinni, verða lagðar til grundvallar í samningaviðræðum dönsku þingflokkanna um stefnu og útgjöld til varnarmála frá 2024 og væntanlega til 2035.

Í eftirmála formanns segir Michael Zilmer-Johns að margt kunni að fara á annan veg en starfshópurinn spái en hvað sem því líði sé ekki minnsti vafi á að á árunum fram til 2035 muni steðja að Dönum alvarlegasta ógn sem þeir hafi kynnst nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins um 1990.

Hann dregur enga dul á hvað þetta mat þýði fyrir stefnu Dana í varnarmálum. Þeir verði að skipuleggja herafla sinn á þann veg að hann eflist til mikilla muna, sé sveigjanlegri en nú og í meiri viðbragðsstöðu. Danir ráði yfir góðum hermönnum og herforingjum og sjá verði til þess að þeir fái aðgang að besta búnaði í heimi. Vegna þess að augljóst sé að ekki verði unnt að manna allar stöður verði að tryggja hernum aðgang að fullkomni tækni til að kraftar og þekking hvers einstaks hermanns nýtist sem best. Það sé bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að hrinda áformum í þessa veru í framkvæmd.

Michael Zilmer-Johns segir að höfuðáhersla í varnarstefnu Dana verði að leggja sitt af mörkum til varna og fælingar á austurvæng NATO. Á hinn bóginn verði til framtíðar einnig að gæta hagsmunanna á Norður-Atlantshafi auk þess að tryggja öryggi á suðurvæng Evrópu. Þótt útgjöld til varna utan landamæranna aukist megi alls ekki slaka á forgangsröðuninni í þágu varna danska konungdæmisins sjálfs.

Formaðurinn segir að ekki sé aðeins nauðsynlegt að skerpa og auka hefðbundnar hervarnir heldur verði einnig að snúast af meiri þunga til varna gegn fjölþátta árásum (d. hybride angreb) og skipulega verði að fara í saumana á öllum þáttum borgaralegrar öryggisgæslu. „Þegar litið er til þess að nú vex þýðing kjarnavopna er ástæða til að velta fyrir sér hvort við neyðumst að nýju til að búa okkur undir það sem er allra verst í huga okkar,“ segir Michael Zilmer-Johns.

Sérfræðingahópurinn sá þann ljósa punkt í starfi sínu og umræðum að nýta megi hugmyndir og tækifæri til samstarfs milli hersins, einkaaðila og háskólanna. Að slíku samstarfi beri að vinna. Þá eigi einnig að nýta sér að Danir hafi fellt úr gildi fyrirvarann sem þeir höfðu gagnvart varnarsamstarfi innan ESB, nú geti dönsk fyrirtæki og rannsóknarstofnanir auk hersins tekið þátt í ESB- samstarfsverkefnum í hergagnaiðnaði.

Skýrslan var lögð fram daginn áður en þing var sett í Danmörku. Líklegt er talið að þingið verði fljótlega rofið og gengið til kosninga. Að þeim loknum og eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar verður þráðurinn tekinn upp að nýju í viðræðum um varnarmálaútgjöldin og stefnuna til 2035.

Á meðan stjórnmálamennirnir takast á um atkvæðin vinnur yfirstjórn danska hersins að því að setja saman greinargerð um þá þætti varnanna þar sem helst eru veikir punktar vegna fjárskorts.

 

Heimild: Altinget.dk

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …