Home / Fréttir / Ný sænsk skýrsla: Aðild að NATO bætir ekki ágalla sænskra varna en eykur fælingarmátt gegn Rússum

Ný sænsk skýrsla: Aðild að NATO bætir ekki ágalla sænskra varna en eykur fælingarmátt gegn Rússum

Krister Bringéus sendiherra.
Krister Bringéus sendiherra.

Aðild Svía að NATO mundi ekki bæta úr ágöllum á varnarkerfi þeirra en gæti fælt Rússa frá að stofna til átaka á Eystrasalti segir í nýrri skýrslu sem verður formlega afhent ríkisstjórn Svíþjóðar í vikunni.

Sænska fréttastofan TT komst yfir skýrsluna og sagði frá henni föstudaginn 2. september.

Núverandi minnihlutastjórn Svíþjóðar undir forsæti jafnaðarmanna fól Krister Bringéus sendiherra sumarið 2015 að kanna hernaðarlegt varnarsamstarf Svía við aðrar þjóðir. Honum var ekki falið að taka afstöðu til þess hvort Svíar ættu að ganga í NATO. Í skýrslunni er kostum og göllum aðildar að bandalaginu hins vegar lýst.

Að mati höfundar er helstu rök með aðild að NATO að með henni yrði eytt óvissu um hver yrðu viðbrögð Svía kæmi til átaka á Eystrasaltssvæðinu.

„Almenn geta til að fæla frá átökum mundi þar með aukast hvernig sem á málið er litið,“ segir í skýrslunni. Hér sé þó um erfitt mat að ræða og þá mundi aukið hernaðarsamstarf við Finna, sem einnig eru utan NATO, einnig „auka svæðisbundinn fælingarmátt“.

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svía, sendi frá sér skriflega yfirlýsingu í tilefni frétta úr óbirtu skýrslunni og sagðist ekki ætla að segja neitt um efnið fyrr en eftir opinbera útgáfu hennar. Ráðherrann sagði einnig: „Öryggismálastefna Svía er alkunn og breytist ekki. Öryggismálastefnu á að móta til langs tíma, hún á að vera stöðug og laus við snarpar sveiflur.“

Bregðast verður við vaxandi spennu á svæðinu með trúverðugum vörnum, segir ráðherrann, með meiri viðræðum á stjórnmálavettvangi og víðtæku tvíhliða og alþjóðlegu samstarfi frekar en ganga í NATO:

„Svarið felst ekki í aðild Svía að NATO. Frelsi undan hernaðarbandalögum þjónar vel hagsmunum okkar og stuðlar að stöðugleika og öryggi í Norður-Evrópu.“

Niðurstöður skoðanakönnunar sem birtust í júlí sýna að meirihluti Svía er andvígur NATO-aðild eins og jafnan áður en þeim fjölgar hins vegar sem vilja ganga i bandalagið.

TT segir að mat skýrsluhöfundar sé að næstum óhugsandi sé að Rússar ráðist með hervaldi gegn Svíum einum. Líklega sviðsmyndin sé, þótt hún sé einnig talin ólíkleg, að Svíar dragist inn í átök sem verði vegna stríðsaðgerða Rússa gegn næstu nágrönnum sínum, NATO-ríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Talið er að rússneski herinn geti á nokkrum dögum lagt undir sig Eystrasaltsríkin þrjú. Kæmi til þess mundu Rússar vilja koma fyrir loftvarnakerfum á sænsku landi, til dæmis eyjunni Gotlandi, til að hindra flug NATO-véla á Eystrasalti.

Bringéus bendir á að þrátt fyrir orrustuþotur og háþróaða kafbáta séu sænskar varnir „ekki án merkjanlegra ágalla“. Kalla þyrfti á aðstoð frá öðrum en það tæki að minnsta kosti þrjár vikur að flytja bandaríska landhermenn til landsins. Þá er áréttað að aðild að NATO kæmi ekki í stað þess að takast á við ágallana á sænska varnarkerfinu. „Fyrsta varnarlína NATO-ríkja felst í getu hvers ríkis fyrir sig,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundur telur líklegt að NATO mundi samþykkja aðild Svía að bandalaginu og það mundi taka 12 til 15 mánuði að afgreiða sænska aðildarumsókn. Hún mundi hins vegar hafa í för með sér pólitíska krísu í samskiptum Svía og Rússa og sé „erfitt að meta umfang hennar“ en hún mundi líklega einkennast af hörðum yfirlýsingum og hernaðarlegum ögrunum.

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …