Home / Fréttir / Ný rússnesk ofurhraða flaug ógnar hernaðarstöðu á norðurslóðum

Ný rússnesk ofurhraða flaug ógnar hernaðarstöðu á norðurslóðum

Kortið sýnir hvert unnt er skjóta Kinzhal-flaugunum sé mið við 1.000 km drægni.
Kortið sýnir hvert unnt er skjóta Kinzhal-flaugunum sé mið við 1.000 km drægni.

 

Rússneskar MiG-31K orrustuþotur búnar nýjum langdrægum Kinzhal-flaugum í flugherstöðvum á Kólaskaga, Franz Josef landi og Novaja Zemlija skapa ógn sem í raun er ekki unnt að verjast á evrópska norðurskautssvæðinu, í Norður-Skandinavíu og á Norður-Atlantshafi segir í grein sem Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer birti fimmtudaginn 19. desember.

Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska herráðsins, efndi þriðjudaginn 17. desember til fundar með 150 hermálafulltrúum 70 sendiráða í Moskvu.

Gerasimov hershöfðingi kynnti hernaðarstefnu Rússa, ný vopnakerfi og viðhorf til hermálaþróunar utan Rússlands og afstöðu annarra til afvopnunarmála, einkum Bandaríkjamanna.

Hann lýsti áhyggjum vegna stöðunnar þegar litið væri til þess að START-samningurinn um takmörkun langdrægra kjarnorkuvopna fellu úr gildi árið 2021. Var þetta inngangur hans að lýsingu á nýjum langdrægum kjarnavopnum sem unnið væri að í Rússlandi.

Hann sagði að nú væri Kinzhal ofurhraða-flugskeytakerfi um borð í flugvélum komið á aðgerða-tilraunastig. Flaugunum hefði verið skotið á æfingasvæðum á mismunandi veðurbeltum og þar á meðal á norðurskautssvæðinu. Tók hershöfðinginn fram að samhliða væri unnið að því að leggja nýtt flugvallanet og með því yrði athafnasvæði flugvéla með Kinzhal-kerfið landfræðilega stækkað.

Nilsen segir að hershöfðinginn hafi ekki nefnt neina flugvelli. Það sé hins vegar vel þekkt að Rússar vinni að því að stækka flugvelli sem þegar eru fyrir hendi fyrir utan að hefja framkvæmdir við fimm nýja flugvelli í nyrstu héruðum Rússlands: Rogatsjovo á Novaja Zemlja, Nagurskoje á Aleksandra-eyju við Franz Josef land, Srednij á Severnaja Zemlja, Kotelníj á Nýju-Síberíu-eyjum og Wrangel-eyju fyrir norðan Kamtsjatka-skaga .

Í grein Nilsens um fund Gerasimovs segir að hann hafi óbeint staðfest að Rússar haldi úti orrustuþotum með Kinzhal-flugskeyti frá Franz Josef landi. Það kunni að raska hernaðarlegu jafnvægi á Norður-Atlantshafi.

Frá því var skýrt í Barents Observer fyrir skömmu að nýja Kinzhal-flaugin hefði fyrst verið reynd við norðurskauts-aðstæður um miðjan nóvember 2019. Þá var flaug af þessari gerð skotið úr MiG-31K þotu sem hóf sig á loft frá Olenegorsk flugvellinum á Kólaskaga. Fréttir hermdu að tilraunaskotið hefði gengið vel og flaugin grandað skotmarki sínu á Pemboj-æfingasvæðinu um 60 km frá Vorkuta nálægt Úral-fjöllum.

Með Kinzhal hafa Rússar tækifæri til að tryggja sér hernaðarlega yfirburði í evrópska hluta norðurskautsins frá Grænlandi í vestri til Norður-Skandinavíu í austri.

Þetta er kjarni varnarkerfis Rússa sem kennt er við brjóstvörn (Bastion) þeirra fyrir kjarnorku-kafbátaflotann í Barentshafi og stöðvar hans á Kólaskaga og annars staðar nyrst í Rússlandi. Með nýju flaugunum ætti Rússum að verða auðveldara en ella að tryggja sér yfirburði í lofti allt suður að GIUK-hliðinu, það er svæðinu frá Grænlandi um Ísland til Skotlands kæmi til hernaðarátaka.

Kinzhal-flaug neðanj í MiG31 orrustuþotu.
Kinzhal-flaug neðan í MiG-31 orrustuþotu.

Sagt er að Kinzhal-flaugin hafi farið með 10 sinnum hljóðhraða þegar henni var skotið í tilraunaskyni yfir Barentshafi í nóvember. Vegna þess hve flaugin er nákvæm og unnt að beita henni með skömmu fyrirvara telja herfræðingar að hún leiði til endurmats á hernaðarlegri stöðu á norðurslóðum. Það sé í raun engin leið að hindra för flaugarinnar sem getur borið sprengjuodda hvort heldur með hefðbundnu sprengiefni eða kjarnorku.

Thomas Nilsen segir að menn séu ekki á einu máli um hve langt sé unnt að skjóta Kinzhal. Þegar henni var skotið yfir Barentshafi í nóvember dró hún um 1.000 km. Rússenska ríkisfréttastofan TASS segir að flaugin dragi 2.000 km en þá ber að hafa í huga að TASS fegrar yfirleitt hernaðarmátt Rússa. Í einni frétt TASS sagði að Kinzhal dragi um 3.000 km sé hún um borð í nýju Tu-22M3 sprengjuvélunum.

Á kortinu sem hér fylgir er gert ráð fyrir að skjóta megi flauginni 1.000 km frá þremur flugvöllum í evrópska hluta norðurskautsins.

Thomas Nilsen segir að norrænir nágrannar Rússlands standi frammi fyrir algjörlega nýrri hernaðarlegri áskorun vegna Kinzhal-flaugarinnar. Flugherstöðin í Bodø í Noregi sé til dæmis í um 800 km fjarlægð frá Montsjegorsk, heimavelli MiG-31 orrustuvélanna, og Olenegorsk, fyrir sunnan Múrmansk, þar sem Tu-22M sprengjuvélarnar eru.

Bodø er heimavöllur norsku F-16 orrustuvélanna. Ørland-flugvöllur fyrir vestan Þrándheim sem verður heimavöllur nýju norsku F-35 orrustuvélanna er í 1.200 kom fjarlægð frá Olenegorsk og Montsjegorsk.

Kallax-flugherstöðin í Luleå í Norður-Svíþjóð er um 570 km frá Olenegorsk og Montsjegorsk en Rovaniemi-flugherstöðin í Norður-Finnlandi (Lapplandi) er í um 370 km fjarlægð frá rússnesku flugherstöðvunum. Satakunta-flugherstjórnin í Tampere í Suður-Finnlandi er einnig í skotlínu um 880 km frá rússnesku flugherstöðvunum tveimur á Kólaskaga.

Sé Kinzhal-flaugum beitt frá Franz Josef landi draga þær yfir allan Svalbarða, til Grænlands og vesturhluta Finnmerkur í Noregi.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …