Home / Fréttir / Ný norsk olíu- og gasleitarsvæði í norðurhöfum

Ný norsk olíu- og gasleitarsvæði í norðurhöfum

Nýju norsku leitarsvæðin eftir olíu og gasi eru bleik á kortinu.

Þrátt fyrir dómsdagsspár í loftslagsmálum býr norska ríkisstjórnin sig undir að heimila enn frekari olíu- og gasleit í nyrst í norðurhöfum.

„Við verðum að finna nýjar lindir til að geta haldið áfram að þróa vinnslu á norska landgrunninu,“ segir Terje Aaslands, olíu- og orkuráðherra Noregs, vegna tillögu ríkisstjórnarinnar um að úthlutað verði 92 nýjum leitar- og vinnslusvæðum nyrst á landgrunni Noregs.

Ráðherrann segir að vinnsla úr nýjum lindum sé bæði mikilvlg fyrir Norðmenn og þjóðir Evrópu.

Um er að ræða leyfi á 92 svæðum sem þegar hafa verið afmörkuð í Noregshafi og Barentshafi. Nyrsta svæðið er í hánorðri á 73 breiddarbaug.

Ríkisstjórnin kynnir þessi áform nokkrum dögum eftir að hún bauð 47 vinnsluleyfi á norska landgrunninu.

Umhverfisverndarinnar bregðast ókvæða við því að olíustefna stjórnvalda sé kynnt á þennan hátt.

Frode Pleym, forystumaður Greenpeace í Noregi, segir að Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og stjórn hans komi fram sem hræsnarar í loftslagsmálum.

Pleym segir á Twitter: „Þeir segja: „Náttúran og loftslagið móta rammann um alla stefnu okkar.“ Þeir vinna gagnstætt þessu. Aftur og aftur.“

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir að svæðið sem nú sé boðið falli ekki að því sem mælt sé með af Alþjóðaorkumálastofnuninni, (International Energy Agency IEA). Í skýrslu hennar frá 2021, Net Zero 2050, segir IEA að eigi að halda hækkun hitastigs jarðar innan við 1,5°C sé ekki unnt að ráðast í nein ný olíu- og gasverkefni.

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og gripu til kúgunaraðgerða gegn ESB-ríkjum í orkumálum glíma Evrópulönd við mikinn orkuvanda en Norðmenn græða á tá og fingri vegna útflutnings á jarðgasi.

Norska olíustofnunin lýsir þróun norskra útflutningstekna í ársskýrslu sinni fyrir 2022, þær hafa hækkað úr um 400 milljörðum NKR árið 2020 í um 1.800 milljarða NKR árið 2022.

Sé litið til baka hafa Norðmenn næstum aldrei unnið eins mikið jarðgas á landgrunni sínu. Framleiðslan á enn eftir að aukast. Fjárfestingar í nýjum verkefnum eru einstaklega háar, sagði Torgeir Stordal, forstjóri olíustofnunarinnar þegar hann kynnti ársskýrsluna.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …