
Forsætisráðherrar Norðurlandanna hittust á fundi í Osló mánudaginn 15. ágúst. Þeir sendu meðal annars frá sér yfirlýsinguna sem hér birtist í íslenskri þýðingu vardberg.is enda hefur engin opinber íslensk þýðing birst. Yfirlýsingin er upphaflega birt á ensku enda er henni meðal annars ætlað að kynna ríkjum innan NATO og annars staðar nýja norræna sýn á öryggis- og varnarmál eftir að Finnar og Svíar sóttu um aðild að NATO.
Sameiginleg yfirlýsing um norræna samvinnu í öryggis- og varnarmálum
Norrænu forsætisráðherrarnir fimm hittust í Osló 15. ágúst 2022 og komu sér saman um eftirfarandi:
Við deilum sameiginlegum grunngildum og öryggishagsmunum og stefnum að því að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.
Við berum þá ábyrgð að vernda opin og lýðræðisleg samfélög okkar þar sem traust er í hávegum haft.
Árásarstríð Rússa gegn Úkraínu hefur gjörbreytt stöðu öryggismála í Evrópu. Norrænu þjóðirnar eiga það sameiginlega markmið að viðhalda stöðugleika og efla öryggi á okkar svæði. Við munum halda áfram að dýpka samtal okkar um hvert stefnir í öryggismálum. Norrænu ríkin ógna engum en þau verða þó að taka höndum saman til að vernda fullveldi okkar, frelsi og sameiginleg gildi.
Aðild Finna og Svía að NATO mun auka styrk NATO og öryggi Evrópu. Þegar litið er til öryggis og varna þá vinna norrænu ríkin nú þegar náið saman í NORDEFCO-samstarfinu og einnig á grundvelli annars tvíhliða og fjölþjóðlegs fyrirkomulags. Með Finnland og Svíþjóð í NATO eru öll norrænu ríkin skuldbundin til að aðstoða hvert annað samkvæmt 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Með þessu dýpkar varnarsamstarf okkar umtalsvert og þetta styrkir varnir Norðurlanda, Eystrasaltssvæðisins, norðurvængs NATO og bandalagsins í heild. Finnar og Svíar eru aðilar að ESB, aðild þeirra að NATO samhliða nýlegri ákvörðun Dana í atkvæðagreiðslu um að falla frá fyrirvörum um þátttöku í öryggis- og varnarsamvinnu ESB skapa tækifæri til efla samstarf milli NATO og ESB.
Norrænt varnarsamstarf verður lagað að nýrri skipan öryggismála. Á nýlegum fundi sínum í Kirkenes fólu norrænu varnarmálaráðherrarnir ráðuneytum sínum að hefja þessa vinnu.
Norrænu ríkin ráða yfir umtalsverðum, nútímalegum og mjög fjölhæfum herafla. Með sameiginlegum æfingum, samræmdri áætlanagerð og hæfni til samfelldra aðgerða er unnt að auka áhrifamátt varna okkar til mikilla muna. Meginstefnumið okkar hvers og eins eru mikilvægir liðir í sameiginlegu öryggi okkar.
Með vísan til þessa munum við þróa frekar samvinnuna í öryggi og vörnum milli þjóða okkar, á grunni núverandi skipulags en með fullri vitund um ávinninginn af því að við verðum bandamenn í NATO. Í þessu skyni stendur vilji okkar til þess:
- Að kanna tækifæri til að efla stjórnmálalegt samstarf með tilliti til öryggis og öflugri viðnámsþróttar á okkar svæði.
- Að taka virkan þátt í að þróa og styrkja NATO sem hernaðarlegt og stjórnmálalegt bandalag.
- Að efla sameiginlegar æfingar og þjálfun í nánu samráði við NATO og bandamenn.
- Að vinna að samlegð og samvirkni með því að samræma varnaráætlanir einstakra landa áætlunum NATO.
- Að efla viðnámsþrótt samfélaga okkar á friðartímum, í hættuástandi og átökum með sameiginlegu stöðumati, samvinnu í allsherjarvörnum, hagvörnum og seiglu gagnvart skaðvænlegum aðgerðum á borð við netárásir og fjölþátta ógnir. Unnið er að því að efla viðnámsþrótt samfélaga okkar á mismunandi vettvöngum og á ólíkum stigum, þar á meðal í NORDEFCO og inna Haga-samstarfsins.
- Að styrkja enn frekar leiðir til að miðla trúnaðarupplýsingum milli viðkomandi ráðuneyta og milli stofnana á Norðurlöndunum.
- Að vinna áfram að því að afla stuðnings við sameiginleg gildi og hagsmuni, eins og fjölþjóðasamstarf innan ramma alþjóðalaga, á viðeigandi alþjóðlegum vettvöngum þar með innan Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.