Home / Fréttir / Ný gagnhryðjuverkamiðstöð Europol varar við árásum í Evrópu – Ríki íslams hafi nú alþjóðlega vídd

Ný gagnhryðjuverkamiðstöð Europol varar við árásum í Evrópu – Ríki íslams hafi nú alþjóðlega vídd

Höfuðstöðvar Europol í Haag
Höfuðstöðvar Europol í Haag

Undanfarin 10 ár hefur hryðjuverkaógnin sem steðjar að Evrópu aldrei verið meiri en núna segir í nýju hættumati sem European Counter Terrorism Centre (ECTC), gagnhryðjuverkamiðstöð Europol, Evrópulögreglunnar, birti í Haag mánudaginn 25. janúar.

Í skýrslu miðstöðvarinnar segir að hryðjuverkaárásirnar í París 13. nóvember 2015 marki þáttaskil í starfi samtakanna Ríkis íslams (RÍ), þau láti nú að sér kveða sem sérþjálfuðu liði á alþjóðavettvangi. Þessi skil og vaxandi fjöldi erlendra vígamanna feli í sér nýjar ögranir fyrir Evrópuríki.

Þá segir að ekki liggi fyrir neinar beinar sannanir um að farand-hryðjuverkamenn nýti sér skipulega farand- og flóttamannastrauminn til Evrópu til að laumast inn í álfuna. Hins vegar felist yfirvofandi hætta í því að meðal Sunní-múslima í hópi sýrlenskra aðkomumanna sé að finna einstaklinga sem kunni að falla fyrir öfgahyggju eftir komuna til Evrópu og íslamskir öfgamenn í leit að nýjum liðsmönnum beini athygli sinni sérstaklega að þeim.

Talið er að hryðjuverkasellur RÍ í Evrópu sæki félaga einkum til heimamanna eða þeirra sem þegar búa í álfunni. Í augum erlendra vígamanna skipti trúarlegi þátturinn ekki eins miklu máli og áður þegar þeir ganga til liðs við RÍ, hann hafi vikið fyrir félagslegum þáttum og þrýstingi frá æðra settum fyrirmyndum. Þá ráði þrá eftir að taka þátt í einhverju sem sé mikilvægt og spennandi miklu. Þeir sem beri sjálfsmorðsprengjur líti frekar á sig sem hetjur en píslarvotta í þágu trúarinnar.

Talsverður hluti þeirra sem gerst hafi erlendir vígamenn hafi greinst með geðræn vandamál áður en þeir gengu til liðs við RÍ. Þá hafi stór hluti nýliða meðal vígamannanna sakaferil að baki fyrir minniháttar eða meiriháttar afbrot.

Eðli og skipulag þjálfunar undir merkjum RÍ geri þeim sem hana hefur hlotið greinilega kleift að framkvæma hryðjuverk af tilfinningakulda eins og fram hafi komið í skotárásunum í París. Ljóst sé að RÍ geri engan mun á skotmörkum eða hvar, hvernig og hvenær þau séu valin, árás kunni að verða gerð næstum hvar sem er og hvenær sem er.

Verulegar líkur séu á frekari hryðjuverkaárásum í Evrópu. Þess vegna sé mikil þörf á að innan ESB og annars staðar efli menn varnir gegn hryðjuverkum, gegn grunsamlegum hryðjuverkanetum og erlendum vígamönnum og átti sig betur á megineðli hættunnar sem að steðji.

ECTC, gagnhryðjuverkamiðstöðin, kom til sögunnar í janúar 2016 í samræmi við ákvörðun sem innanríkis- og dómsmálaráðherrar ríkjanna að baki Europol tóku í nóvember 2015 eftir árásirnar í París. Með miðstöðinni eykst aðgangur aðildarríkja Europol, þar á meðal Íslands, að upplýsingum um hryðjuverkaógnina og sameiginlegu átaki gegn henni.

Miðstöðin starfar innan skipulagsramma Europol sem hefur þegar látið að sér kveða í baráttunni gegn hryðjuverkum. Eftir árásirnar í París tilnefndi Europol til dæmis allt að 60 lögreglumenn til að aðstoða rannsóknarhópa Frakka og Belga. Frá  þjóðunum tveimur hefur nú borist umtalsvert magn upplýsinga meðal annars um 800 trúnaðar-ábendingar sem talið er að rekja þurfi nánar og rúmlega 1.600 ábendingar um grunsamlega tilfærslu fjármuna.

Rob Wainwright, forstjóri Europol, segir að markmiðið sé að gagnhryðjuverkamiðstöðin, ECTC, verði megin upplýsinga- og gagnagrunnur í baráttunn gegn hryðjuverkum í Evrópu, unnið verði greiningarstarf í þágu rannsókna á einstökum málum og stuðlað verði að samræmdu viðbragði við meiriháttar hryðjuverkaárásum.

Manuel Navarrete Paniagua, háttsettur foringi í spænsku ríkislögreglunni, Guardia Civil, mun fara með stjórn ECTC. Hann hefur víðtæka reynslu í baráttu við hryðjuverkamenn og hefur undanfarið verið forstöðumaður hryðjuverkadeildar Europol. Í upphafi munu 39 manns starfa í ECTC auk fimm tengslafulltrúa einstakra ríkja.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …