
Ný freigáta og stórt landgönguskip bætast innan skamms við rússneska Norðurflotann eftir að hafa verið meira en áratug í smíðum og reynslusiglingum segir Atle Staalesen hjá vefsíðunni Barents Observer mánudaginn 27. nóvember.
Nýja freigátan, Admiral Gorshkov, verður afhent þegar ferðum hennar á þjálfunarsvæði Norðurflotans í Barentshafi lýkur. Freigátan er stærsta herskip sem smíðað er í Rússlandi í tæpa tvo áratugi.
Skipið er 4.500 lestir og 135 metra langt. Það er fyrsta skipið af verkefninu 22350 sem nær til smíði að minnsta kosti freigátna af sömu gerð. Skipið er búið vopnum til árása á fjarlæg skotmörk, þá má beita því gegn kafbátum og til fylgdar öðrum skipum.

Árið 2015 hófust reynslusiglingar á Admiral Gorshkov meðal annars í Hvíta hafi.
Þrjár samskonar freigátur eru nú smíðum í St.Pétursborg. Smíði á Admiral Gorshkov hófst þegar árið 2006 og upphaflega var ráðgert að skipið yrði tekið í notkun á árinu 2012.
Um þessar mundir er þess einnig vænst að nýtt landgönguskip bætist í Norðurflota Rússa fyrir árslok. Um er að ræða 5.000 lesta skip sem ber nafnið Ivan Gren.
Smíði skipsins hófst þegar árið 2004. Áætlun er að smíða eitt systurskip.