
Varnarmálaráðherrar NATO samþykktu á fundi 15. júní að koma á fót flotamiðstöð til að tryggja öryggi neðansjávargrunnvirkja.
Á hafsbotni liggja óralöng rör og kaplar sem skipta sköpum fyrir daglegt líf nútímamannsins.
Með rafstrengjum er flutt rafmagn frá vindmyllum á hafi úti til neytenda, í rörum berst gas og olía um alla Evrópu og fjarskiptakaplar tryggja að unnt er að tengja samband milli einstaklinga um heim allan.
Allt þetta samsafn kapla, röra og leiðslna er ógjörninur að hafa undir stöðugu eftirliti og það er viðkvæmt fyrir árás.
Til að bregðast við hættunni sem steðjar að þessu kerfi hafa varnarmálaráðherrar NATO-landanna ákveðið að koma á fót flotastofnun til að verja mikilvæg neðansjávargrunnvirki.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, skýrði frá samþykkt ráðherranna á blaðamannafundi í Brussel föstudaginn 16. júní. Miðstöðin verður hluti af flotaherstjórn NATO í Northwood, skammt frá London.
Tilgangurinn er einkum að safna og miðla upplýsingum frá herjum og njósnastofnunum NATO-landanna auk þess sem borgaralegar stofnanir og fyrirtæki sem eiga grunnvirkin leggja sitt af mörkum.
Í danska ríkisútvarpinu var rætt við Troels Lund Poulsen, starfandi varnarmálaráðherra, sem sagði að danska ríkisstjórnin styddi þessa ákvörðun meðal annars af reynslunni á Eystrasalti síðsumars 2022 vegna skemmdarverksins á Nord Stream gasleiðslunum auk ýmislegs annars sem gerst hefði.
Því miður væri staðan þannig að sögn ráðherrans að þjóðir stæðu frammi fyrir nýrri ógn og Rússar hefðu tekið sér fyrir hendur að kortleggja hvar finna mætti grunnvirki á hafsbotni. Það yrði að gera það sem unnt væri til að verjast ásókn þeirra.
Í DR var rætt við Rasmus Dahlberg, lektor við Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólann, sem taldi öll rök mæla með því að innan NATO skiptust menn skipulega og í einni miðstöð á upplýsingum um þennan þátt öryggisgæslunnar, það væri bæði fjárhagslega hagkvæmt og stuðlaði að auknu öryggi.
Fyrsta skrefið fyrir NATO væri að greina ógnina og síðan að gera ráðstafanir til að komast að því hver stæði að baki henni. Þetta væri ekki nýtt viðfangsefni NATO-ríkjanna, síður en svo, nú væri hins vegar staðið sameiginlega að verki í einni miðstöð. Þetta yrði ekki aðeins til að styrkja viðbragðið innan NATO heldur einnig út á við gagnvart þeim sem hefðu eitthvað illt í huga.
Heimild: DR.dk