Home / Fréttir / Ný finnsk skýrsla: Finnar verða að búa sig undir meiri ógn af Rússum

Ný finnsk skýrsla: Finnar verða að búa sig undir meiri ógn af Rússum

News_ImageRussiavsFinland

 

Finnum stafar nú meiri ógn af Rússum en áður segir í nýrri skýrslu sem Finnska utanríkismálastofnunin (FIIA) sendi frá sér þriðjudaginn 30. ágúst. Þar eru finnskir ráðamenn hvattir til að vera á varðbergi gagnvart því hvernig Rússar beita orkustefnu sinni til að hafa pólitísk áhrif og styrkja stöðu sína, auk þess beri að hafa hugfast að vestræn markaðslögmál gildi ekki í Rússlandi.

FIIA segir að ný stefna Rússa í utanríkismálum kalli á meiri viðbúnað við hættuástandi í Finnlandi. Í orkumálum verði að sýna aðgát vegna ólíkra viðhorfa Finna og Rússa til Fennovoima-kjarnorkuversverkefnisins. Í ýmsum löndum hafi Rússar reynt að gera aðrar þjóðir sér háðar í orkumálum.

Reisa á Fennovoima-kjarnorkuverið í Pyhäjoki á vesturströnd Finnlands. Að framkvæmdinni stendur hópur fjárfesta og þar á meðal rússneski kjarnorkuverktakinn Rosatom sem er bæði meðal hluthafa og aðalbirgirinn.

Í skýrslunni er til dæmis vitnað í ársskýrslu finnsku öryggislögreglunnar þar sem segir að meginmarkmið rússneskra njósnastofnana árið 2015 hafi verið að hafa áhrif á orkustefnu Finna og líklegt sé að haldið verði áfram tilraunum til að hafa áhrif á stefnuna.

Niðurstaða skýrslunnar er að ýmiss konar hætta stafi af Rússum og mestu skipti fyrir Finna að fjármagna og bæta viðnámsþrótt þjóðarinnar á mörgum ólíkum sviðum.

Í FIIA-skýrslunni eru ýmsar tillögur til finnskra stjórnvalda, þar á meðal þessar:

Finnskir fjárfestar ættu að forðast stór-fjárfestingar í Rússlandi um þessar mundir vegna efnahagslegrar óvissu í landinu.

Finnar eiga að viðhalda tvíhliða tengslum við Rússa en stöðugt upplýsa samaðila sína að ESB um framvinduna. Annars kynnu Finnar að kalla yfir sig hættu.

Finnar eiga að gefa Rússum til kynna að þeir vilji viðhalda nánum efnahagslegum og menningarlegum tengslum en samtímis láta í ljós vanþóknun á því að Rússar brjóti alþjóðalög.

Finnskir ráðamenn verða að átta sig á áherslunni sem Rússar leggja á að gera aðra sér háða. Finnar eiga að beita sér fyrir að stefna ESB gagnvart Rússum sé einhuga og reist á raunsæju mati og gera Rússum ljóst að finnskir embættismenn fara ekki að pólitískum fyrirmælum í störfum sínum.

Finnar verða koma sér upp opinberum boðleiðum sem er treyst og eru hraðvirkar. Sé staðfest að tilraunir séu gerðar til að hafa áhrif á töku ákvarðana ber að skýra frá þeim opinberlega. Vinna ber að því að fella minnihlutahópa – einkum Rússa – inn í finnskt samfélag.

Finnar eiga að halda áfram náinni hernaðarlegri samvinnu á öllum stigum við vestræna samstarfsaðila og jafnframt búa sig undir aðgerðir á svonefndum „gráum svæðum“ sem eru annars eðlis en hefðbundin hernaðarátök.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …