Þýska ríkisstjórnin ræðir miðvikudaginn 24. ágúst nýja almannavarnaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að borgarar landsins verði skyldaðir til að safna birgðum sem nota megi komi til hamfara eða árásar. Í áætluninni segir að almenningur eigi að búa sig undir að þau ólíklegu atvik verði sem „geti ógnað tilvist okkar“.
Frá efni áætlunarinnar er skýrt í Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung 21. ágúst. Er þetta í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins sem þýska ríkisstjórnin ætlar að hvetja borgara Þýskalands til að búa sig undir hamfarir eða hernaðarárás með því að eiga birgðir af matvælum, vatni og öðru til daglegra þarfa. Miðað er við matvæli til 10 daga og drykkjarvatn til fimm daga.
Í almannavarnastefnunni felst að einstaklingar eigi nægilega mikið af mat, vatni, orku, peningum og lyfjum til að brúa bilið þar til stjórnvöld geta gripið til gagnaðgerða vegna hamfara eða árásar.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins vildi ekkert segja um fréttina úr skýrslunni, frá efni hennar yrði sagt á blaðamannafundi miðvikudaginn 24. ágúst.
Skýrslan er alls 69 bls. Þar er talið ólíklegt að gerð verði hernaðarárás á Þýskaland. Í blaðinu er hins vegar vitnað í varnaðarorð í skýrslunni þar sem segir að fólk skuli „búa sig á viðeigandi hátt undir þróun sem kunni að ógna tilvist okkar og ekki er unnt að afskrifa með öllu sé litið til framtíðar“.
Árið 2012 fór þingnefnd þess á leit að gerð yrði almannavarnaáætlun fyrir Þýskaland.
Heimild: dw. de