Home / Fréttir / Ný 500.000 manna herkvaðning Rússa sögð á döfinni

Ný 500.000 manna herkvaðning Rússa sögð á döfinni

Syrgjendur leggja blóm á gröf óþekkta hermannsins í borginni Samara eftir að tugir eða hundruð rússneskra hermanna féllu á nýársnótt í bænum Makiivka í austurhluta Úkraínu, á hernámssvæði Rússa.

Njósnastofnun Úkraínu fullyrðir að Rússar ætli að efna að nýju til víðtækrar herkvaðningar. Margir sérfræðingar taka undir skoðun stofnunarinnar.

Sænskur öryggismálafræðingur og sérfræðingur í rússneskum málefnum, Katarina Engberg, segir mánudaginn 9. janúar við sænska ríkisútvarpið SVT að allt bendi til þess að Rússar skipuleggi nú nýja sókn í Úkraínu í vor.

Úkraínumenn telja líklegt að allt að 500.000 manns verði kallaðir inn í rússneska herinn. Boð verði látið út ganga um þetta fljótlega – strax sunnudaginn 15. janúar.

Áformin séu til marks um að Pútin forseti vilji herða á innrásarstríðinu sem hefur brátt staðið i eitt ár.

Vadym Skibitskíj, forstjóri njósnastofnunar Úkraínu, telur að fjölgunin í hernum boði aukna sókn Rússa í austri og suðri í Úkraínu í vor og sumar. Sjálfur Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti lét nýlega varnaðarorð falla:

„Enginn vafi er á að rússneskir ráðamenn munu nýta allt sem þeir eiga í tilraun til að breyta gangi stríðsins eða að minnsta kosti að til að fresta ósigri sínum.“

Katarina Engberg, sérfræðingur og öryggismálaráðgjafi við Svenska institutet för europapolitiska studier – Sænsku rannsóknarstofnun Evrópumála – segir að sjá megi nokkur merki um að rússneski herinn sé að sækja í sig veðrið.

„Það er ekki látið við það sitja að tala um meiri mannafla heldur er gripið til breytinga á sviði iðnaðar og almenningur hvattur til að standa við bakið á hetjunum í fremstu víglínu. Allt bendir til undirbúnings undir árás með vorinu,“ segir hún.

Rússneski varnarmálaráðherrann Sergej Shoigu sagði 21. desember að Rússar hefðu áform um að fjölga um þriðjung í her sínum – alls yrðu 1,5 milljónir manna undir vopnum. Þá hafa Kremlverjar brotið gegn eigin þöggun og tekið til við að tala um vandræði og mannfall í eigin röðum í Úkraínu.

„Þetta eru nýmæli í umræðu um stríðið og með þeim er markmiðið að mana Rússa til að láta að sér kveða. Nú er þetta ekki lengur sérstök aðgerð á vegum einhverra annarra en rússnesku þjóðarinnar. Þetta er tekið að síast inn í rússneska samfélagið.“

Pútin hafnar þessu tali um herkvaðninguna og segir hana „tilgangslausa“, einkum vegna þess að enn hafi aðeins helmingur þeirra 300.000 nýliða sem kallaðir voru út í september í fyrra komið til starfa. Þá lét Pútin einnig eins og ekki stæði til að fjölga í hernum allt þar til tilkynningin um kvaðninguna nýliðanna birtist.

Mikil reiði varð í Rússlandi vegna herkvaðningarinnar í september 2022 og lagði fjöldi ungra karla á flótta til nágrannalanda.

Andstaða við fjölgun í rússneska hernum hefur ekki minnkað við fréttir á miklum mannskaða vegna sprengjuárása Úkraínuhers. Segir herráð Úkraínu að meira en 111.000 rússneskir hermenn hafi fallið í stríðinu.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …