Home / Fréttir / Nuuk: Ráðgast um öryggismál danska konungdæmisins

Nuuk: Ráðgast um öryggismál danska konungdæmisins

Aksel V. Johannesen Færeyjum, Múte B. Egede Grænlandi og Mette Frederiksen Danmörku á blaðamannafundi í Nuuk 6. júní 2023.

Stjórnarleiðtogar landanna þriggja sem mynda danska konungdæmið eða ríkjasambandið (d. rigsfællesskabet), Danmerkur, Færeyja ogGrænælands komu saman til fundar þriðjudaginn 6. júní til að ræða utanríkis,- öryggis- og varnarmál og miðvikudaginn 7. júní til að ræða málefni ríkjasambandsins sjálfs.

Á blaðamannafundi þriðjudaginn 6. júní í Hans Egedes húsi í Nuuk, höfuðstað Grænlands, minnti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, á stöðugt meiri óróleika í veröldinni þar sem meiri árásarhugur einkenndi framgöngu Rússa. Af þessu tilefni væri tilefni til að þétta raðir þjóðanna í norðri. Á fundinum hefði hefði verið rætt um fyrirhugað 10 ára samkomulag um varnir ríkjasambandsins og við þær ákvarðanir yrðu Danir að eiga samstarf við Færeyinga og Grænlendinga.

Innan ríkjasambandsins starfar svonefnd Kontaktudvalg – Tengslanefnd – sem fjallar um öryggis- og varnarmál. Nefndin kom til sögunnar fyrir fáeinum árum og í stofnun hennar felst formleg viðurkenning af hálfu stjórnarinnar í Kaupmannahöfn á nauðsyn að skipulegs samráðs um þessi málefni við stjórnvöld í Þórshöfn og Nuuk.

Fjölmenn dönsk sendinefnd

Mette Frederiksen var með fjölmennt fylgdarlið þegar hún kom til Nuuk síðdegis þriðjudaginn 6. júní, daginn eftir að hún hitti Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington.

Þrír danskir ráðherrar fyrir utan forsætisráðherrann sóttu fundi í Nuuk að þessu sinni: utanríkisráðherra Lars Løkke Rasmussen, starfandi varnarmálaráðherra Troels Lund Poulsen og dómsmálaráðherra Peter Hummelgaard.

Þá voru þar einnig fulltrúar leyniþjónustu lögreglunnar, Politiets Efterretningstjeneste (PET), og leyniþjónustu hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE). Fulltrúar þessara stofnana hafa aldrei áður ferðast til Nuuk til að hitta færeyska og grænlenska þingmenn í tengslum við ráðherrafundina.

Peter Suppli Benson sem skrifar um norræn málefni í Berlingske fór einnig til Nuuk og minnti á í grein um fundina þar að Danir ætli að stórauka útgjöld sín til varnarmála og í tengslum við þá ákvörðun væri sagt að norðurslóðir séu líklega enn mikilvægari fyrir öryggi Danmerkur en Eystrasaltið.

Í Nuuk leggi menn á ráðin um sameiginlega varnarstefnu landanna þriggja í ríkjasambandinu á norðurslóðum.

Deilt um norðurslóðasendiherra

Lokaákvarðanir um utanríkis- og varnarmál eru í höndum stjórnarinnar í Kaupmannahöfn og er það liður í sjálfstæðisþreifingum Færeyinga og Grænlendinga að óska eftir meiri hlutdeild stjórna sinna í ákvörðunum á þessum málefnasviðum.

Til marks um að Grænlendingar vilji að meira tillit sé tekið til þeirra við mótun og framkvæmd utanríkisstefnu ríkjasambandsins má nefna nýleg mótmæli þeirra við ákvörðun danska utanríkisráðuneytisins um hver skuli gegna stöðu norðurslóðasendiherra (d. arktisk ambassadør).

Embætti norðurslóðasendiherra danska konungdæmisins var stofnað árið 2012. Frá upphafi hafa Danir gegnt embættinu. Sendiherrann kemur fram fyrir hönd konungdæmisins gagnvart öðrum ríkjum heims í norðurslóðamálum. Grænlendingar vilja nú Grænlending í embættið í stað danska embættismannsins sem var nýlega skipaður í það. Hann er Tobias Elling Rehfeld, sendiherra Dana í Suður-Afríku.

Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, sagði á blaðamannafundinum þriðjudaginn 6. júní að ekki hefði fundist sameiginleg lausn á deilunni um hvern skipa ætti sem norðurslóðasendiherra. Færeyski lögmaðurinn, Aksel V. Johannesen, sagði stjórn sína styðja Grænlendinga í þessu máli.

Múte B. Egede gaf til kynna á blaðamannafundinum að leysa mætti málið þrátt fyrir ólíka afstöðu til þess hvern skipa ætti í þetta embætti. Stefnt væri að niðurstöðu áður en Danir taka við formennsku í Norðurskautsráðinu eftir tvö ár. Þar yrði tekið tillit til Grænlendinga.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …