Home / Fréttir / Norskt varðskip í fyrsta sinn á Norðurpólnum

Norskt varðskip í fyrsta sinn á Norðurpólnum

Norskir varðskipsmenn á Norðurpólnum.
Norskir varðskipsmenn á Norðurpólnum.

Norska varðskipið KV Svaldbard sem smíðað er til íshafssiglinga er á ferð um Norður-Íshafið undir merkjum CAATEX, alþjóðlegs verkefnis til rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á hafið undir forystu stofnananna Nansen Environmental og Remote Sensing Centre.

Miðvikudaginn 21. ágúst braut skipið blað í sögunni með því að verða fyrst norskra skipa til að sigla að Norðurpólnum.

Hluta leiðarinnar sigldi norska varðskipið í kjölfar rússnesks ísbrjóts. Þar var um að ræða kjarnorkuknúna ísbrjótinn 50 let Pobedíj sem siglir með ferðamenn á Norðupólinn og hefur farið fimm ferðir þangað í sumar.

Kjarnorkuknúni, rússneski ísbrjóturinn Arktika varð 17. ágúst 1977 fyrstur skipa til að komast á Norðurpólinn. Fridtjof Nansen og áhöfn hans um borð í skipinu Fram gerðu fyrstu tilraun til að láta reka með ísnum yfir Norður-Íshafið 1893-96.

Kjarnorkuknúni, bandaríski kafbáturinn USS Nautilus varð fyrstur til að komast til Norðurpólsins neðansjávar, undir ísnum, 3. ágúst 1958.

Sænski ísbrjóturinn Oden var fyrsta skipið án kjarnakljúfs til að sigla á Norðurpólinn, það var í september 1991. Kanadíska strandgæslan sendi tvo ísbrjóta til Norðurpólsins árið 1994, CCGS Terry Fox og CCGC Louis S. St-Laurens, sama ár sendu Bandaríkjamenn strandgæsluskipið Polar Star á Norðurpólinn.

 

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …