Home / Fréttir / Norskir togaramenn hafa viðvaranir Rússa að engu

Norskir togaramenn hafa viðvaranir Rússa að engu


 

Rússneskt herskip við skotæfingu á Barentshafi.

Norskir togarar eru enn að veiðum á Barentshafi fyrir norðan og sunnan Bjarnareyju þrátt fyrir tilkynningu rússneska Norðurflotans um hættu þar vegna flugskeytaæfinga. Norska varðskipið K/V Bergen er einnig á svæðinu.

Frá þessu er skýrt á norsku vefsíðunni Barents Observer sunnudaginn 13. ágúst. Þar er haft eftir Ane Haavardsdatter Lunde, upplýsingafulltrúa norska utanríkisráðuneytisins, að Rússar séu ábyrgir fyrir því samkvæmt hafréttarlögum og alþjóðalögum almennt að gætt sé norskra réttinda við framkvæmd heræfinga.  Þær fara nú fram innan efnahagslögsögu Noregs og fyrir sunnan Svalbarða. Lunde segir að þetta nái einnig til réttar fiskiskipa á svæðinu.

Í fréttum norska ríkisútvarpsins, NRK, var rætt við Dag Jøsund útgerðarmann sem á skipið Nokasa sem nú er við veiðar um 100 sjómílur fyrir sunnan Bjarnarey. Hann segir að skipið verði að óbreyttu  þar áfram.

Barents Observer segir að sjá megi á MarineTraffic.com að morgni sunnudags 13. ágúst að enn séu mörg norsk fiskikip innan hættusvæðisins sem rússneski Norðurflotinn hefur skilgreint fyrir norðan og sunnan Bjarnarey.

Kjell-Gunnar Hoddevik, forstjóri Atlantic Seafish, sem á togarann Atlantic sem nú er 115 sjómílur fyrir norðan Bjarnarey, innan hættusvæðis Rússa, sagði við NRK að í samráði við skipstjóra og áhöfn togarans mætu þeir stöðuna en skipið væri ekki á förum að svo stöddu. Afstaða Rússa væri óviðunandi og það þyrfti mikið að gerast til að þeir yfirgæfu svæðið. Rússar ættu ekki að geta hrakið norsk skip af miðum í lögsögu þeirra.

Audun Maråk, forstöðumaður samtaka norskra togaraútgerða, segir að rætt hafi verið við norsk stjórnvöld um neikvæðar afleiðingar heræfinga Rússa. Það sé mjög sérstakt að ríki sem ráðist hafi inn í nágrannaríki sitt efni til heræfinga í norskri lögsögu. Það ætti ekki að geta gerst.

Barents Observer segir að mál kunni að þróast þarna á sama veg og á Írlandshafi árið 2022 þegar heimafloti írskra sjómanna sigldi inn á svæði sem rússneski flotinn hafði lýst sem skotæfingasvæði sitt. Stjórnvöld í Moskvu breyttu þá um æfingasvæði og færðu herskip sín út fyrir írska efnahagslögsögu.

Æfingarnar á Barentshafi eiga að standa til þriðjudagsins 15. ágúst.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …