Home / Fréttir / Norski varnarmálaráðherrann áréttar mikilvægi njósna og vöktunar

Norski varnarmálaráðherrann áréttar mikilvægi njósna og vöktunar

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs.
Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs.

 

„Staða Noregs í öryggismálum er nú alvarlegri en til þessa. Eftirgrennslan [njósnir] og vöktun eru meðal mikilvægustu verkfæranna sem við ráðum yfir til að tryggja öryggi norsku þjóðarinnar. Þótt starf á þessu sviði sé að miklu leyti unnið með leynd lýtur það ströngu lýðræðislegu eftitliti,“ þannig hefst grein sem Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, skrifaði í norska blaðið VG mánudaginn 10. október. Þar segir einnig:

„Þrýst er á öryggi Evrópu. Við getum ekki lengur útilokað að hervaldi verði beitt gegn Noregi. Sá tími er liðinn að ríki sendu stríðsyfirlýsingu  með stjórnsrerindreka. Í nútíma átökum er öllum úrræðum í hendi ríkisvaldsins beitt – stjórnmálalegum, efnahagslegum og hernaðarlegum. Af þessum ástæðum er mikilvægara en áður að við áttum okkur vel á umhverfi okkar.

Eftirgrennslanaþjónustan (E-þjónustan) ber sérlega ábyrgð á að vara við aðstæðum sem kunna að ógna norsku öryggi. Þjónustan gegnir einnig mikilvægu hlutverki við að auðvelda norskum yfirvöldum að skilja inntak viðburða og framvindu mála.

Góð yfirsýn gefur færi á að taka skjótar og góðar ákvarðanir. Hún dregur einnig úr líkum á að menn misskilji það sem gerist. Það eitt getur dregið úr spennu. […]

Hernaðarumsvif í nágrenni okkar aukast. Rússar hafa árum saman varið miklu fé til að nútímavæða herafla sinn. Nú má glöggt sjá árangur þess. Rússneski heraflinn sem siglir og flýgur í nágrenni Noregs er allur annar en áður var. Aukins áhuga á norðurslóðum gætir einnig annars staðar.

Vegna þessa eykst þörfin fyrir vöktun og eftirgrennslan. Á árinu 2017 munu Norðmenn halda úti tveimur skipum við eftirgrennslan á norðurslóðum – Marjata og Eger. Frá skipunum verður fylgst með hernaðarlegum umsvifum. […]

Við munum á næstu árum uppfæra ratsjáreftirlitskerfið Globus á Vardø.. Verkefnin breytast ekki, þau verða sömu og áður en getan til að vinna þau eykst og batnar. Verkefni Globus-kerfisins er þríþætt:

Vakta farartæki í geimnum.

Vakta loftrýmið yfir Barentshafi og á norskum hagsmunasvæðum í norðri.

Safna gögnum í þágu rannsókna og þróunar.

Þetta skiptir miklu fyrir öryggi Noregs en ratsjárkerfið er einnig mikilvægur liður í Space Surveillance Network þar sem virk og óvirk gervitungl eru kortlögð ásamt geimdrasli.“

Varnarmálaráðherrann rekur síðan hvernig staðið er sð eftirliti kjörinna fulltrúa þjóðarinnar með starfsemi E-þjónustunnar. Henni sé heimilað að skiptast á upplýsingum við erlendar stofnanir á sama sviði. Þar skipti samstarfið við Bandaríkjamenn mestu. Samvinnan sé til dæmis mikil varðandi Globus-kerfið en þar sé öll vöktun og annað í höndum Norðmanna, ríkisborgarar annarra landa komi ekki að þeim störfum. Sama eigi við um starfsemina um borð í njósnaskipunum Marjata og Eger.

„Alþjóðalög og réttur koma ekki í veg fyrir að ríki geti stundað eftirgrennslan. Norðmenn stunda eftirgrennslan – og aðrar þjóðir stunda eftirgrennslan gegn okkur. Eftirgrennslan er nauðsynleg til að vernda lýðræði okkar,“ segir norski varnarmálaráðherrann undir lok greinar sinnar. Lokaorðin eru þessi:

„Lega Noregs er einstök. Mikill hluti þjóðarauðs okkar og nýtingar hans er á hafsvæðunum undan ströndum Noregs. Við erum einnig nágrannar eins af mestu herveldum heims. Það er krefjandi fyrir lítið ríki og leggur á okkur þunga ábyrgð. Eftirgrennslan og vöktun er meðal mikilvægustu verkfæranna sem við eigum til að tryggja arfleifð okkar og þjóð. Vitneskja og forsjálni skipta miklu í nábýli við stórveldi.

Eftirgrennslanaþjónusta okkar fylgist vel með því sem gerist í nágrenni lands okkar.“

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …