
Skrokkurinn af KV Hopen, þriðja nýja ísstyrkta varðskipi Norðmanna, var dreginn til Vard Langsten skipasmíðastöðvarinnar í Tomrefjord í sveitarfélaginu Vestnes á vesturströnd Noregs föstudaginn 27. janúar. Skrokkurinn var smíðaður í Rúmeníu. Varðskipið verður fullsmíðað og tækjum búið þegar það verður afhent norsku strandgæslunni árið 2024.
Um er að ræða þriðja varðskipið sem Norðmenn láta smíða til úthalds fjarri strönd landsins í norðurhöfum á Grænlandshafi, Noregshafi og Barentshafi og auk þess fyrir norðan Svalbarða. Gæslusvæði norskra varðskipa stækkar jafnt og þétt þegar ísinn hopar í norðri.
Ískort nú í janúar 2023 sýna mikil áhrif loftslagsbreytinga. Svæði sem áður voru ísi þakin og lokuð fiskiskipum eru nú opin til veiða og siglinga fyrir flutninga- og skemmtiferðaskip.
Kort frá norsku veðurstofunni sýna nú opið haf á 81° fyrir norðan Svalbarði. Norðmenn ráða yfir hafsvæði sem er tæplega 2 milljónir ferkílómetra, það er um sjö sinnum stærri en fastalandið.
Nýju varðskipin þrjú eru nefnd eftir norskum eyjum í norðurhöfum: KV Jan Mayen, KV Bjørnøya og KV Hopen.
KV Svalbard er stærsta varðskip Norðmanna. Nýju skipin þrjú verða með þyrlupall og þyrluskýli eins KV Svalbard. Allt að 100 manns rúmast um borð í hverju nýju skipanna.
Varðskipin eru búin stórri byssu og vélbyssum. Þá er kafbátaleitarbúnaður um borð í skipunum og geta þau gegnt hernaðarlegu hlutverki á norðurslóðum. Um borð eru geymslur fyrir tundurskeyti og tundurdufl.
Fyrsta skipið af þremur nýju norsku varðskipunum KV Jan Mayen er 136,4 m langt og 22 m breitt með þyrlupalli og þyrluskýli. Úthaldstími skipsins er átta vikur án þess að þurfa eldsneyti eða vistir.
Varðskipin KV Jan Mayen, KV Hopen and KV Bjørnøya koma í stað þriggja varðskipa af Nordkapp gerð sem hafa þjónað norska hernum í rúmlega 40 ár.