Home / Fréttir / Norski olíusjóðurinn hverfur frá fjárfestingum í olíu og gasi

Norski olíusjóðurinn hverfur frá fjárfestingum í olíu og gasi

a551c33e119926b0312e9204e7ae9f88

Norska fjármálaráðuneytið boðaði föstudaginn 8. mars að ætlunin væri að draga úr fjárfestingum risavaxna norska olíusjóðsins í olíuvinnslufélögum í því skyni að „minnka áhættu í norsku efnahagslífi af samlegðaráhrifum vegna olíuverðs“.

Um er að ræða stærsta þjóðarsjóð í heimi og segir The Financial Times að líklegt sé að umhverfisverndarsinnar noti ákvörðunina sem „fordæmi fyrir aðra alþjóðlega fjárfesta“ auk þess sem þetta sé tillaga um „mesta fráhvarf frá fjárfestingu í jarðefnaeldsneyti“.

Um er að ræða um átta milljarða dollara eignarhald í 134 félögum. Þar má nefna bandarísku olíu- og gasfélögin Anadarko, Marathon Oil, Continental Resources, Chesapeake Energy auk annarra. Þar eru einnig sænska fyrirtækið Lundin og rússnesku fyrirtækin Novatek og Bashneft.

Ákvörðunin snertir aðeins olíu- og gasfyrirtæki en ekki samsett stórfyrirtæki eins og Equinor (áður Statoil) í Noregi sem reisa framleiðslu sína á endurnýjanlegum orkugjöfum að einhverju en vaxandi leyti.

„Talið ert að næstum allur vöxtur í skráðum endurnýjanlegum orkugjöfum á næstu áratug verði knúinn áfram af fyrirtækjum sem helga sig ekki aðallega endurnýjanlegri orku. Sjóðurinn ætti að geta átt aðild að þessum vexti,“ sagði Siv Jensen fjármálaráherra í yfirlýsingu.

Bloomberg-fréttastofan birti skýringu á því hvers vegna norska ríkið, sem á 67% í olíu- og gasrisanum Equinor, grípur til þessa ráðs:

„Sjóðurinn telur litla skynsemi í því fyrir Norðmenn að taka tvöfalda áhættu á olíumörkuðunum. Afkoma þeirra er nú þegar mjög tengd olíu þar sem þeir eru stærsti olíu- og gasframleiðandi í Vestur-Evrópu, næstum helmingur útflutnings þeirra og rúmlega 20% af ríkistekjunum á uppruna sinn í þessari hrávöru.“

Andstæðingar fjárfestinga í jarðefnaeldsneyti fögnuðu ákvörðuninni. Mark Campanale, forstjóri Carbon Tracker Initiative í Bandaríkjunum, sagði við Axios-vefsíðuna að þetta sýndi að norska fjármálaráðuneytið skildi að framtíðin væri þeirra sem hyrfu frá jarðefnaeldsneyti. Nú ættu snjallir fjárfestar um heima allan að fara að þessu fordæmi og taka ákvarðanir sem bæru með sér skilning á raunveruleikanum í breytingum á orkumarkaðnum.

Stjórn norska þjóðarsjóðsins er í höndum fjárfestingadeildar innan norska seðlabankans, Norges Bank, í umboði fjármálaráðuneytisins. Í sjóðnum eru um 900 milljarðar evra.

Stjórn sjóðsins lagði til við fjármálaráðherrann að sjóðurinn drægi sig að fullu og öllu út úr orkugeiranum en Siv Jensen vildi að mildari leið yrði farin.

Gaute Eiterjord, leiðtogi samtaka ungs náttúruverndarfólks í Noregi, fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar og að lífeyri fólks yrði ekki lengur varið til að fjárfesta í olíu og gasi sem eyðilegði framtíðina.

Sjóðurinn á eignarhlut í meira en 9.000 fyrirtækjum um heim allan, þar á meðal Apple, Nestlé, Microsoft og Samsung. Hann lætur að sér kveða í flestum kauphöllum heims og í 73 löndum.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1996, næstum 30 árum eftir að Norðmenn fundu í fyrsta skipti olíu í Norðursjó.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …