
Samningur um að norski herinn fái aftur ráð yfir kafbátalæginu Olavsvern við Tromsø verður kynntur á næstunni. Með því að kafbátalægið verði opnað að nýju er stefnt að því að binda enda á deilur um að bandarískir kjarnorkukafbátar athafni sig við Tromsø.
Í nokkur ár hefur bandaríski flotinn notað Malangen fyrir sunnan Tromsø til að skipta um áhafnir og fá vistir um borð í kafbáta sína áður en þeir halda til aðgerða í Barentshafi fyrir norðan rússneska Kólaskagann.
Oft eru áhafnir fluttar til og frá flugvellinum í Tromsø til Sommarøya og síðan út í kafbátinn sjálfan af fyrirtækinu Sommarøy Sea Family.
Ýmis öryggisvandamál hafa orðið vegna þessara aðferða við að halda fullkomnustu árásarkafbátum heims úti. Gildi þeirra felst ekki síst í leyndinni yfir ferðum þeirra.
Nú bendir allt til þess að innan skamms tíma geti bandaríski flotinn að nýju haft afnot af lokuðu flotastöðinni Olavsvern fyrir utan Tromsø. Árið 2009 lokaði norski herinn stöðinni af því að talið var að ekki þyrfti að nýta hann í þágu hersins lengur þar sem samskiptin við Rússa hefðu batnað og spenna á norðurslóðum minnkað við það sem var í kalda stríðinu.
Fjárfestar í Tromsø keyptu Olavsvern árið 2013 og nú stendur Olavsvern Group AS. fyrir rekstri þar. Annað fyrirtæki, WilNor, hefur forkaupsrétt að 2/3 hlutfjár í Olavsvern Group frá næstu áramótum. WilNor hefur samið við norska herinn um að hann fái aftur afnot af flotastöðinni. WilNor hefur gert marga samninga við norska herinn meðal annars um geymslu á hergögnum.