
Erik Kristoffersen, yfirmaður norska hersins, afhenti miðvikudaginn 7. júní Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra hernaðarlega ráðgjafarskýrslu 2023. Þar kemur fram að þörf er á alveg nýju herfylki til landvarna í Finnmörk, nyrsta fylki Noregs.
Þá telur Kristoffersen að loftvarnir Noregs séu ekki nægilega öflugar og þörf sé á vörnum gegn langdrægum flaugum og drónum. Óskað er eftir fjárveitingu til að koma upp nýju langdrægu loftvarnakerfi og hæfni til að takast á við dróna.
Á blaðamannafundi miðvikudaginn 7. júní sagði Erik Kristoffersen að hættan úr austri ykist og að Rússar litu sérstaklega til Svalbarða sem hernaðarlega mikilvægs svæðis. Það yrði að bregðast skjótt við tilmælum um öflugri varnir.
Hershöfðinginn nefndi fimm höfuðatriði sem hafa yrði í huga til að styrkja heraflann:
- Að bæta þekkta veikleika í varnarkerfinu.
- Að auka hæfni hersins á hafi úti,
- Að auka loftvarnir bæði vegna hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
- Að efla getu heraflans til að granda skotmörkum í mikilli fjarlægð.
- Að auka viðnámsþróttinn með því að fjölga enn meira í heraflanum.
Ráðgjöf yfirstjórnar hersins 2023 verður notuð við gerð áætlunar til langs tíma. Hún verður síðar lögð fyrir norska þingið. Samhliða ráðgjöfinni liggja fyrir álit nefnda um varnarmál annars vegar og um almannavarnir hins vegar. Unnið er að gerð varnaráætlunar til fjögurra ára, 2024 til 2028 í Noregi.
Erik Kristoffersen er ekki í nokkrum vafa um að mesta ógn gegn Noregi komi frá Rússum. Árás þeirra á Úkraínu sýni það. Líkur hafi aukist á átökum sem snerti Noreg beint.
Hann segir að gildi norðurslóða í hernaðarlegu tilliti hafi aukist. Bandamenn Norðmanna haldi herafla sínum meira en áður í næsta nágrenni Noregs og meira sé krafist af Norðmönnum til að áhrif þeirra og viðbragð vegna stöðu mála minnki ekki.
Í ráðgjafarskýrslunni er ekki farið leynt með að hernaðarlegt markmið Rússa sé að halda strategískum yfirburðum á norðurslóðum (e. Arctic).
Kristoffersen segir að á næstu 10 árum kunni Rússar að hverfa frá yfirlýstum vilja til að líta á norðurslóðir sem lágspennusvæði. Stríðið í Úkraínu veiki Rússa hernaðarlega og þeir telji að spennan í samskiptum þeirra við NATO hafi áhrif í norðri.
Hann segir einnig að Svalbarði fái aukið hernaðarlegt gildi í augum Rússa.
Hershöfðinginn telur að geri Rússar árás á Noreg muni þeir líklega ráðast á hernaðarleg og mikilvæg borgaraleg grunnvirki víða um landið til að veikja norskar hervarnir og vilja almennings til að verjast.
Norðmenn eiga mikið undir nýtingu auðlinda sjávar og siglingum við strendur Noregs og þar með einnig undir vörnum á hafi úti og neðansjávar auk loftvarna.
Kristoffersen minnir á að mikilvægustu flotahafnir Rússa séu á Kólaskaga, fyrir austan landamæri Noregs, þar sem nýjum, hljóðlátum og öflugum kafbátum fjölgi. Það sé því forgangsverkefni fyrir Norðmenn að auka kafbátavarnir í samvinnu við bandamenn sína, einkum Bandaríkjamenn og Breta.
Uppfæra verður öll skip herflotans. Vill hershöfðinginn að smíðaðar verði sex nýjar freigátur. Auk þess verði smíðuð sex hefðbundin herskip, allt að 16 minni skip með nútíma vopn og eftirlitsbúnað.
Nýju skipin eiga að koma til sögunnar frá 2027 til 2037 samkvæmt ráðgjöfinni.
Í ráðgjafarskýrslunni er vakið máls á að Kínverjar leggi sitt af mörkum með Rússum til að minnka áhrif Bandaríkjanna og vestursins í heild. Samvinna Rússa og Kínverja verði sífellt nánari en Kínverjar telji það falla að hagsmunum sínum og áhrifum þar á meðal á norðurslóðum.
„Rússar verða háðari Kínverjum vegna stríðsins og refsiaðgerða Vesturlanda. Þegar til lengri tíma er litið kunna Rússar einnig að neyðast til að fara að óskum Kínverja á norðurslóðum. Í nágrenni við okkur hafa umsvif Kínverja einkum tengst rannsóknum og viðskiptahagsmunum auk verkefna í geimnum og netheimum en þetta kann að breytast,“ segir Kristoffersen.