Home / Fréttir / Norski herinn verður stórefldur í Finnmörku vegna ógnar frá Rússum

Norski herinn verður stórefldur í Finnmörku vegna ógnar frá Rússum

Frá heræfingu í Norður-Noregi.

Í 12 ára langtímaáætlun til að styrkja norska heraflann sem kynnt var föstudaginn 5. apríl er gert ráð fyrir að í norska landhernum verði þrjú stórfylki í stað þess að nú sé þar aðeins eitt, Brigade Nord, með um 4.500 menn.

Nú er ætlunin að til sögunnar komi Finnmerkur stórfylki, Finnmark Brigade, með herbúðir í Porsangermoen skammt frá Lakselv og Høybuktmoen skammt frá Kirkenes við landamæri Rússlands og í nágrenni við Kólaskaga sem er mjög hervæddur.

Á blaðamannafundi við kynningu á langtímaáætluninni sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, að um ókomin ár yrðu Norðmenn að glíma við hættulegri nágranna en áður. Vísaði hann þar til þess að gjörbreyting hefði orðið á hættumati varðandi öryggi norðurhluta Noregs eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Landvarnir Finnmerkur verða efldar með loftvarnakerfum, stórskotaliðsherfylki, fótgönguliðaherfylki, verkfræðideild, njósnadeild og öflugra stjórnkerfi. Verður strax hafist handa við að styrkja varnir Finnmerkur. Ætlunin er að fullskipað stórfylki verði komið til sögunnar árið 2032.

Nú eru í landher Finnmerkur um 400 hermenn í Porsanger herfylkinu og um 800 í Jeger herfylkinu í Sør-Varanger herbúðunum við Kirkenes hjá landamærum Rússlands. Þá eru einnig liðsmenn heimavarnarliðsins í Finnmörk, þjálfaðir í Porsangermoen.

Fyrsta skrefið til að efla varnir Finnmerkur verður að bæta þar við nýju loftvarnakerfi og stofna stórskotaliðsherfylki. Þá verða 90 brynvarin ökutæki flutt til Porsangermoen.

Í áætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að sérþjálfað og sérbúið hraðlið verði til taks þurfi að veita aðstoð í Finnmörku og megi senda það til orrustu með skömmum fyrirvara.

Í liðinu verði hermenn úr heimavarnarliði á Oslóarsvæðinu og yrði flogið með þá norður ef þörf krefðist.

Markmiðið er að snúast tafarlaust gegn rússnesku herliði yrði það sent yfir landamærin inn í Noreg og valda sem mestu tjóni á því.

Hermönnum í Finnmörku fjölgar um mörg þúsund samkvæmt langtímaáætluninni, margir þeirra verða þar vegna herskyldu og til þjálfunar.

Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra sagði við kynningu á langtímaáætluninni að alls verði meira en 20.000 að gegna herskyldu, sinna störfum í þágu hersins eða í varaliðinu. Nú gegna um 4.600 herskyldu. Fjöldinn nær til allra greina norska heraflans.

Heræfingunni Nordic Response 2024 sem lauk í msrs var ætlað að æfa flutning liðsauka til Finnmerkursvæðisins og kom hluti NATO-liðsins sjóleiðis að strönd Noregs. Þá voru um 5.000 hermenn fluttir landveg frá næstu nágrönnum Noregs, Finnlandi og Svíþjóð, nýjustu aðildarríkjum NATO.

Norska ríkisstjórnin leggur áherslu á að Finnmerkur stórfylkið eigi að tryggja að unnt sé að senda liðsauka til Noregs auk þess sem æft sé og þjálfað í þeim tilgangi að eiga sem mest sameiginlegt með herjum bandamanna Noregs í NATO.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …