Home / Fréttir / Norski herinn fylgist náið með spennunni við Úkraínu

Norski herinn fylgist náið með spennunni við Úkraínu

Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska hersins.

Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska heraflans, sagði við fréttastofuna NTB föstudaginn 22. janúar að hann teldi ástandið við landamæri Úkraínu mjög alvarlega.

„Hernaðaruppbygging Rússa er markviss og að henni hefur verið staðið í nokkurn tíma. Okkar mat er að Rússar séu nú í stöðu til að hefja innrás í alla Úkraínu svo að segja alveg án fyrirvara,“ segir Kristoffersen.

Hann segir norska herinn og bandamenn Noregs hafi góða sýn yfir það sem gerist hernaðarlega hjá Rússum.

„Heraflinn umhverfis Úkraínu er svo mikill að hann getur í raun gert hvað sem er. Rússar geta gert stór-innrás sem er lang hættulegast og þeir geta einnig gripið til minni aðgerða.“

Óvissan sé um hvað fyrir Rússum vaki í raun og um það viti ef til vill aðeins lítill hópur í kringum Vladimir Pútin Rússlandsforseta eða kannski bara hann einn. Hernum hafi verið stefnt saman og hann bíði skipana.

Hætta sé á að átök hefjist fyrir mistök þar sem báðir aðilar standi nú gráir fyrir járnum við landamærin og einnig á Svartahafi.

Eitt sé að Rússar hafi getu til að ráðast inn í Úkraínu alla eða hluta landsins án stórvandræða en annað hvort og hvernig þeim takist að stjórna landinu til langs tíma í krafti hervalds gegn andstöðu sem hljóti að verða skipulögð.

Kristoffersen segist hafa hitt yfirmann herafla Úkraínu og orðið þess var að þar sé mikill vilji til að svara árás Rússa.

„Það erfitt að átta sig á hverju á að fá áorkað með slíkri hernaðarárás. Eitt er að hún er dýrkeypt bæði sé litið til mannafla og fjárhagslegra þátta. Þá er erfitt að átta sig á hver eigi að verða lokaniðurstaðan. Úkraína er stórt land með með fjölmennan her svo að það er erfitt að sjá að unnt sé að halda völdum þar til langframa þótt unnt sé að beita hervaldi. til að ráða yfir stórum hlutum landsins,“ segir Kristoffersen.

Rússnesk umsvif á Eystrasalti

Undanfarna daga hafa Rússar einnig aukið hernaðarleg umsvif sín á Eystrasalti. Fellur það að yfirlýsingu þeirra um að efnt verði til mikilla flotaæfinga á öllum hafsvæðum þar sem þeir halda úti skipum. Þetta á einnig við um Norðaustur-Atlantshaf rétt við lögsögu Noregs.

„Við sáum skip sigla út Eystrasalt á leið sinni til Svartahafs svo að það er líklega mat Rússa að best sé fyrir þá að einangra átökin við Úkraínu og ekki láta þau ná til annarra staða. Þeim finnst líklega best að allt sé eins rólegt í norðri og kostur er,“ segir Kristoffersen.

Norðmenn fengu enga tilkynningu um flotaæfingar Rússa í nágrenni við sig þótt þeir gæti þess að tilkynna Rússum ávallt um eign heræfingar. Samtal Norðmanna og Rússa um hernaðarleg málefni hefur ekki breyst frá 2014 þegar mjög var úr því dregið eftir innrás Rússa á Krímskaga.

Kristoffersen segir að rússnesk herskip sigli nú suður Noregshaf í áttina að Bretlandseyjum. Spurning sé hvort þau stöðvi þar eða haldi einnig til Svartahafs. Norðmenn fylgist með ferðum skipanna.

NTB segir að myndir frá Gotlandi á dögunum sem sýndu sænska hermenn á eftirlitsferðum um eyjuna hafi vakið mikla athygli. Norðmenn hafi ekki gripið til neinna sambærilegra aðgerða en Kristoffersen segir að innan norska hersins hafi menn gripið til ráðstafana vegna spennunnar í Evrópu. Hann hafi gefið fyrirmæli um farið skyldi yfir allar áætlanir samhliða aukinni árvekni.

Hann segir að til þessa hafi ekkert óvenjulegt gerst í norðri og umsvifin þar séu jafnvel minni en við var búist, það sé ekki um neina uppbyggingu rússnesks herafla i nágrenni Noregs að ræða.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …