Norski varnarmálaráðherrann kynnti föstudaginn 13. október nýtt skipulag á norska hernum og heimavarnarliðinu. Þar er lögð sérstök áhersla á varnir Norður-Noregs.
Komið verður á fót sérstöku hreyfanlegu herfylki í Porsangermoen í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs. Þar er um að ræða 400 hermenn og þungavopn.
Rússland er fyrir austan Finnmörku. Varnarmálaráðherrann, Ine Eriksen Søreide, segir að nýja skipulagið á hernum megi rekja til þess að staða öryggismála sé óráðnari en áður og krefjist meira af heraflanum.
Fyrir utan herfylkið verða 200 hermenn með léttar loftvarnabyssur og vopn gegn bryndrekum í herstöðinni Sør-Varanger, rétt við rússnesku landamærin. Porsangermoen er um 200 km fyrir vestan rússnesku landamærin. Herstöðin Sør-Varanger er við flugvöllinn í Kirkenes um 5 km frá rússnesku landamærunum.
Heimavarnarliðið verður einnig eflt í Finnmörku og þjálfun heimavarnarliðsmanna í öðrum hlutum Noregs verður hagað á þann veg að þá megi flytja hratt til Finnmerkur sé þess talin þörf.
Norska ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarp sitt fyrir árið 2018 fimmtudaginn 12. október og þar eru útgjöld til hersins aukin um 3 milljarða NKR.
„Fjárlagafrumvarpið styrkir herafla okkar. Við höfum eins og bandamenn okkar skuldbundið okkur til að auka útgjöld til varnarmála í því skyni að vernda sameiginleg gildi, öryggi og hagsmuni heima og erlendis. Markmið okkar er að tryggja að herafli okkar njóti nægilegrar þjálfunar, tækja og stuðnings til að sinna verkefnum sínum. Þetta frumvarp dugar einmitt til þess,“ sagði Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra.
Heimild: Barents Observer