Home / Fréttir / Norski herinn efldur við rússnesku landamærin í Finnmörk

Norski herinn efldur við rússnesku landamærin í Finnmörk

 

Norskir hermenn í vetrarbúningum.
Norskir hermenn í vetrarbúningum.

Norski herinn lætur að sér kveða í nyrsta fylki Noregs, Finnmörk, með því að koma á fót nýjum herdeildum þar. Finnmörk á sameiginleg landamæri með Rússlandi og fyrir austan þau er Kólaskaginn helsta víghreiður Rússa.

„Við erum að byggja upp herinn í Finnmörk. Heraflinn lýtur nú allur einni herstjórn þar: Landvörnum Finnmerkur,“ sagði Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, við ritstjóra vefsíðunnar Barents Observer þegar ráðherrann heimsótti Porsangermoen, nyrstu herstöð heims á 70° norður breiddar,

Ráðherrann fer ekki leynt með þá skoðun að öryggismál í Evrópu hafi tekið á sig nýja mynd eftir innlimun Rússa á Krím. Aukinn herbúnað Norðmanna á norðurslóðum megi rekja til aukinnar óvissu.

„Við teljum Rússa ekki ógna Noregi hernaðarlega en það sem kann að gerast í öryggismálum er er ekki eins fyrirsjáanlegt og áður,“ segir Bakke-Jensen.

Herstöðinni í Porsanger var að mestu lokað eftir að kalda stríðinu lauk. Nú er stöðin full af ungum hermönnum sem æfa vetrarhernað í hvítum felubúningum. Þeim mun enn fjölga. Nú eru um 150 hermenn í stöðinni, þeir verða um 400, fullskipað riddaraliðsherfylki árið 2022.

Við hliðina á herstöðinni er Halkavarre, stærsta skotæfingarsvæði í Noregi. Þar æfa norskir hermenn með hermönnum frá NATO-ríkjum. Breskir, bandarískir og hollenskir hermenn hafa verið þar við æfingar í vetur.

Frá Porsanger-herstöðinni eru um 20 km til Banak-flugvallar. F-16 þotur norska flughersins nota Banak-flugvöll og fara ekki til flugvalla fyrir norðan hann.

Landherstjórnin í Finnmörk ætlar að halda úti 200 manna liðsveit í Sør-Varanger rétt við rússnesku landamærin. Hún ræður yfir léttum vopnum til loftvarna- og bryndrekavarna. Hlutverk hennar er að grípa til gagnráðstafana sé brotið gegn norsku yfirráðasvæði á 198 km löngu sameiginlegu landamærum Rússlands og Noregs.

Þá verður heimavarnarliðið einnig eflt í Finnmörk. Liðsveitir heimavarnarliðsins annars staðar í Noregi verða þjálfaðar og búnar tækjum til að senda megi þær til Finnmerkur sé þess þörf.

Heimild: Barents Observer

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …