Home / Fréttir / Norski flugherinn sinnir loftrýmisgæslu við Ísland

Norski flugherinn sinnir loftrýmisgæslu við Ísland

Rune
Rune Jakobsen ræðir við liðsmenn norska flughersins í Keflavík. Heimild: Norski flugherinn

 

Frá 30. maí til 27. júní síðastliðinn sinnti norski flugherinn loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Loftrýmisgæslusveitin samanstóð af fjórum F-16 orrustuþotum, 80 manna starfsliði auk búnaðar sem var fluttur sjóleiðis frá Noregi til Íslands. Sveitin hafði aðsetur á öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland á sér stað þrisvar til fjórum sinnum á ári og fór fyrst fram vorið 2008 með komu franskrar flugsveitar til Íslands. Einstök aðildarríki Atlantshafsbandalagsins bjóða fram þátttöku í verkefninu. Norsk stjórnvöld hafa áður lagt fram flugsveitir til loftrýmisgæslu, síðast árið 2014. Í það skipti tóku sænskar og finnskar flugsveitir þátt í æfingum með norsku flugsveitinni og var það í fyrsta sinn sem sænsk og finnsk stjórnvöld senda herþotur til Íslands.

„Þessu verkefni er sinnt í öllum aðildarlöndum Atlantshafsbandalagsins alla daga ársins en hér er þetta gert með loftrýmisgæsluverkefnum,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslu Íslands. „Eins og staðan er í dag þá eru þetta þrjár vikur í senn. Þeir eru samt í fimm vikur í heild. Fyrsta vikan fer í að þjálfa sig, þrjár vikur þar sem sveitin sinnir loftrýmisgæslu og svo vika sem fer í að undirbúa brottför.“

Íslensku loftrýmisgæsluverkefnin eru fá yfir árið og vara stutt. Tilgangur norsku flugsveitarinnar er að fljúga í veg fyrir flugvélar innan íslenska loftrýmisgæslusvæðisins sem borgaraleg flugmálayfirvöld bera ekki kennsl á. Ef um rússneskar herflugvélar er að ræða fylgja norsku vélarnar þeim eftir þar til þær fljúga úr íslensku loftrýmisgæslusvæði.

Skömmu eftir brotthvarf Varnarliðsins frá Íslandi árið 2006 hófst aftur reglubundið flug rússneskra herflugvéla í kringum Ísland, sem hefur staðið yfir fram til dagsins í dag. Slík flug voru hversdagslegir viðburðir á dögum kalda stríðsins en lögðust af eftir hrun Sovétríkjanna.

Flest voru þau árið 2007, þegar 10 slík flug fóru inn fyrir íslenska loftrýmisgæslusvæðið. „Flug rússneskra flugvéla hefur aukist töluvert á norðurslóðum og á Eystrasaltshafi á síðustu misserum, en ekki hér yfir eða í kringum landið,“ segir Jón B. Guðnason.

Árið 2015 fóru fjögur flug rússneskra herflugvéla inn fyrir íslenska loftrýmisgæslusvæðið, ávallt er um tvær eða fleiri flugvélar að ræða í hverju flugi fyrir sig.

„Eftirlit á norðurslóðum og þekking á svæðinu eru sameiginlegir hagsmunir Íslands og Noregs. Þar skipta upplýsingar úr íslenska loftvarnarkerfinu Norðmenn og Atlantshafsbandalagið miklu máli,“ segir Rune Jakobsen, yfirmaður norsku herstjórnarinnar í Reitan í Norður-Noregi, sem var staddur á Íslandi í tilefni loftrýmisgæslu Norðmanna.

Samvinna Noregs og Íslands á sviði varnarmála er góð, segir Jakobsen. Löndin eru nálægt hvort öðru menningarlega og regluleg samskipti eiga sér stað á milli norskra hernaðaryfirvalda og íslensku Landhelgisgæslunnar.

„Noregi stafar engin ógn af Rússlandi,“ segir Jakobsen „en framtíð Rússlands er óræð og Rússland hefur undanfarin ár verið að nútímavæða herafla sinn og stendur nú tæknilega jafnfætis Vesturveldunum.“

Spurður um hernaðarsamskipti Noregs og Rússlands segir Jakobsen að fyrir rúmum tveim árum síðan hafi samskipti ríkjanna verið mjög góð. Eftir innlimun Rússlands á Krímskaganum hafi öll samskipti herstjórnarinnar í Reitan verið rofin við rússnesk hernaðaryfirvöld, sem liður í sameiginlegum refsiaðgerðum Atlantshafsbandalagsins. Í dag eru samskiptin einskorðuð við rússnesku landamærastofnunina FSB um málefni sem varða strandgæslu, leit og björgun og málefni sem snúa að sameiginlegum landamærum ríkjanna tveggja.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …