Home / Fréttir / Norskar varnir verða stórefldar á næstu árum með 600 milljörðum NOK

Norskar varnir verða stórefldar á næstu árum með 600 milljörðum NOK

Frá vinstri: Trygve Slagsvold Vedum fjármálaráðherra, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra kynna langtímaáætlunina um varnir Noregs á blaðamannafundi 5. apríl 2024 um borð í varðskipinu KV Bjørnøya við bryggju í Osló.

Norska ríkisstjórnin kynnti föstudaginn 5. apríl 12 ára langtímaáætlun í varnarmálum þar sem gert er ráð fyrir að útgjöld til þeirra aukist um 600 milljarða norskra króna (NOK). Í sjóhernum fjölgi freigátum um fimm, loftvarnir tvöfaldist og þrjú stórfylki bætist við landherinn.

Höfuðatriði áætlunarinnar eru:

Núverandi varnir verða styrktar: Tekið verður á alvarlegum vanda líðandi stundar, meðal annars með því að auka birgðir af skotfærum og tækjum, viðhaldi á byggingum og mikilvægum mannvirkjum og skapa meira rými til að taka á móti liðsafla bandamanna og ráða fleira fólk.

Liðsafli verður aukinn: Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að til 2036 fjölgi í hernum um 4.600 manns, í varaliðinu fjölgi um 13.700 og ráðnum starfsmönnum um 4.600, gert verði átak til að auka færni starfsmanna.

Sjóherinn verður efldur: Stefnt er að fjölga freigátum um fimm í norska herflotanum, um borð verði þyrlur til kafbátaleitar, minnst fimm kafbátar bætist við flotann og tíu stór og átján minni skip. Í krónum talið aukast útgjöldin mest til sjóhersins með langtímaáætluninni.

Landherinn og heimavarnir eflast með auknum sóknarþunga: Þrjú stórfylki bætast við landherinn, eitt í Finnmörku, eitt í Troms og eitt nýtt í suðri. Landherinn styrkist einnig með langdrægum nákvæmnisflaugum, fjölgun skriðdreka, loftvörnum og þyrlum fyrir herinn og sérsveitir. Liðsmönnum í heimavarnarliðinu verður fjölgað um 45.000.

Söguleg efling loftvarna: Ríkisstjórnin ætlar að kaupa langdræg loftvarnakerfi sem veiti vörn gegn skammdrægum skotflaugum. Þar að auki verður núverandi NASMAS-loftvarnakerfi tvöfaldað og verður það þróað til að verjast drónum og flaugum. Bæði flugherinn og landherinn fá fleiri kerfi og uppfærsla verður á núverandi loftvarnakerfi.

Bætt ástandsmat: Með auknu eftirliti og viðveru verði vitneskja aukin um það sem gerist í næsta nágrenni Noregs í þessu skyni verði nýtt ný farartæki og eftirlit aukið með gervihnöttum og drónum.

„Þetta er sögulegt átak í þágu heraflans og í því felst að efla allar greinar hans,“ sagði Jonas Gahr Støre þegar áætlunin var kynnt á blaðamannafundi. „Noregur ógnar engum og NATO ógnar engum en við verðum að geta varið okkur.“

Forsætisráðherrann nefndi fimm höfuðröksemdir að baki nýju áætluninni. Fyrst beindi hann athygli að Rússlandi:

„Við leggjum til grundvallar að í mörg næstu ár verðum við að laga okkur að hættulegri og óútreiknanlegri nágranna.“

Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022 voru árleg útgjöld norska ríkisins til varnarmála 71 milljarður NOK. Gert er ráð fyrir að árið 2026 verði þau 166 milljarðar á verðgildi norsku krónunnar 2024.

Støre sagði við norska ríkisútvarpið NRK að ekkert sé mikilvægara en að tryggja öryggi lands og þjóðar: „Ég vona að það verði víðtækur stuðningur við framkvæmd áætlunarinnar á stórþinginu,“ sagði norski forsætisráðherrann.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …