
Um þessar mundir er stærsti kjarnorkukafbátur heims, rússneski kafbáturinn Dmitri Donskoj, á siglingu norður með strönd Noregs eftir að hafa tekið þátt í flotasýningu í St. Pétursborg. Kafbáturinn er 172 metra langur og getur borið allt að 200 kjarnaodda. Hann er knúinn af tveimur gömlum kjarnakljúfum og siglir ofansjávar.
Í norska ríkisútvarpinu, NRK, var mánudaginn 7. ágúst rætt við Astrid Liland, deildarstjóra í Statens Strålevern, norsku geislavörnunum, sem segir að ferðir kafbáta svipuðum þessum séu ekki lengur sjaldgæfar.
„Við höfum orðið vör við tíðari ferðir kjarnorkukafbáta undan ströndum Noregs – bæði koma bandamenn í heimsókn og einnig er um að ræða rússneska kafbáta sem sigla með strönd landsins allt suður til Bretlandseyja,“ segir Liland.
Norsk yfirvöld óttast að fjölgun kjarnorkukafbáta við strendur landsins auki hættuna á kjarnorkuslysum og þess vegna vilja þau hefja dreifingu á joð-töflum til stærri hluta landsmanna en áður.
Norska ríkisútvarpið segir að starfshópur hafi verið settur á laggirnar til að kanna hvernig best sé að miðla joð-töflunum til markhópsins en í honum eru börn og unglingar undir 18 ára aldri og konur með börn á brjósti. Talið er að töflurnar dragi úr líkum á krabbameini í skjaldkirtli markhópsins.
Til að töflurnar virki ber að taka þær innan fáeinna klukkustunda eftir að dreifing á geislavirku joði kann að hafa orðið.
Í vöruhúsi í Osló eru um þessar mundir 43 bretti með þremur milljónum joð-taflna. Eru þær hluti viðbúnaðar norskra yfirvalda gegn geislavirkni. Þessum töflum á að dreifa um byggðir landsins.
Ferðir kafbáta og fjölgun þeirra er ekki það eina sem hefur hvatt norsku geislavarnirnar til að auka aðgæslu og forvarnir heldur einnig gömul kjarnorkuver víða í Evrópu auk vaxandi spenna milli Rússa og vestrænna þjóða segir NRK.