Home / Fréttir / Norskar F-35 orrustuþotur fylgdu bandarískum B-2A sprengjuþotum við Ísland

Norskar F-35 orrustuþotur fylgdu bandarískum B-2A sprengjuþotum við Ísland

Bandaríski flugherinn tók þessa mynd af þremur norskum F-35 þotum og B-2A bandarískri sprengjuvél.
Bandaríski flugherinn tók þessa mynd af þremur norskum F-35 þotum og B-2A bandarískri sprengjuvél.

Rússar sendu fimmtudaginn 12. mars tvær Tu-160 hljóðfrár sprengjuþotur frá Kólaskaga suður í Biscaya-flóa fyrir vestan Frakkland. Mánudaginn 16. mars voru tvær bandarískar B-2A  sprengjuþotur í fylgd þriggja norskra orrustuþotna á æfingu við Ísland og yfir Norður-Atlantshafi.
Torséðu bandarísku sprengjuþoturnar hófu sig á loft frá Fairford-flugherstöðinni á Englandi og hittu þrjár norskar F-35 þotur yfir Íslandi. Norski flugherinn hefur undanfarnar vikur annast loftrýmisgæslu á vegum NATO með fjórum F-35 vélum frá Keflavíkurflugvelli.

Þegar norsku þotuflugmennirnir æfðu við hlið flugmanna B-2A vélanna mánudaginn 16. mars var það í fyrsta sinn sem þeim gafst slíkt tækifæri.

„Þetta var vissulega sérstakt augnablik,“ sagði Sigurd Tonning-Olsen, talsmaður norska flughersins, í símtali við Thomas Nilsen, ritstjóra norsku vefsíðunnar BarentsObserver, sem birti frétt um æfinguna þriðjudaginn 17. mars. „Flugmennirnir voru verulega spenntir.“

Tonning-Olsen segir að F-35-vélarnar hafi verið um 90 mínútur á lofti og þar af 30 til 45 mínútur á æfingu með B-2A vélunum.

Norsku vélarnar komu til Íslands undir lok febrúar og dvöl þeirra hér lýkur næstu daga.

„Það hefur verið hvasst og snjóað,“ segir Tonning-Olsen. „F-35 vélarnar hafa reynst mjög vel í þessu vetrarveðri.“

Bandaríkjamenn flugu B-2A sprengjuvélum í fyrsta sinn á norðurslóðum fyrir undan strönd Noregs í september 2019. Áður höfðu vélarnar í fyrsta sinn átt stutta viðdvöl á Keflavíkurflugvelli. Vegna þess hve vélarnar eru torséðar er unnt að senda þær til aðgerða á svæðum sem eru varin með mjög öflugum loftvarnakerfum.

Loftvarnaæfing Rússa

Undanfarin ár hafa Rússar unnið að því að setja háþróuðustu og nýjustu loftvarnakerfi sín upp á ýmsum herstöðvum við Norður-Íshaf, þar á meðal á Franz Josef landi, Novaja Zemlja og Kólaskaganum.

Rússnesk S-400 eldflaugakerfi á Novaja Zemlja.
Rússnesk S-400 eldflaugakerfi á Novaja Zemlja.

Skömmu eftir að norsku flugmennirnir höfðu æft með bandarísku flugmönnum B-2A-vélanna efndu Rússar til æfingar í því skyni að verja lofthelgina yfir Norðursiglingaleiðinni að sögn rússneska hersins. Sprengjuvélar af gerðinni Su-24 og Mig-31BM þotur tóku átt í æfingunni. Segir yfirstjórn rússneska Norðurflotans að öllum óvinavélum hafi verið grandað í æfingunni.

Rússar hafa meðal annars sett upp S-400 loftvarnakerfi á þessum slóðum en engum eldflaugum kerfisins var skotið á loft í þessari æfingu.

Fyrstu S-400 flaugarnar voru teknar í notkun á Novaja Zemlja árið 2019. Markmið stjórnenda Norðurflotans er að eldflaugakerfin verði til loftvarna við allar stöðvar hans.

 

Heimild: BarentsObserver

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …