Home / Fréttir / Norskar F-35 ofurþotur í fyrsta sinn við hlið rússneskra hervéla

Norskar F-35 ofurþotur í fyrsta sinn við hlið rússneskra hervéla

Norski flugherinn tók þessa mynd af tveimur F-35 orrustuþotum á Keflavíkurflugvelli.
Norski flugherinn tók þessa mynd af tveimur F-35 orrustuþotum á Keflavíkurflugvelli.

Tvær norskar F-35 orrustuþotur frá Ørland-flugherstöðinni fylgdust í fyrsta sinn með ferðum rússneskra hervéla á leið þeirra suður með strönd Noregs laugardaginn 7. mars. Norðmenn sendu einnig tvær F-16 orrustuþotur á vettvang frá Bodø. Þarna voru tvær Tu-142 vélar og ein MiG-31 þota á flugi suður í Norðursjó.

Þetta var í annað sinn á tveimur vikum sem rússneskar flota- og kafbátaleitarvélar fljúga mun lengra suður á bóginn en venjulega og inn á hafsvæðin milli Grænlands, Íslands og Bretlands (GIUK-hliðið).

Norska herstjórnin segir að laugardaginn 7. mars hafi menn í Sørreisa-vaktstöðinni í Norður-Noregi fyrst séð til vélanna á flugi úr norðri.

Í fyrstu sendu Norðmenn tvær F-16 orrustuþotur á vettvang frá Bodø-flugstöðinni sem er fyrir norðan heimskautsbaug. Flugmenn þeirra fylgdu Rússunum um hríð utan norskrar lofthelgi. Þegar sunnar dró sendu Norðmenn tvær F-35 orrustuþotur frá Ørland-flugherstöðinni í Suður-Noregi.

Þegar F-35 þotur Norðmanna flugu við hlið rússnesku vélanna var um sögulegt atvik að ræða þar sem þessar nýju ofurþotur norska flughersins höfðu aldrei fyrr verið sendar í veg fyrir rússneskar vélar.

Fyrir sunnan norsku vélarnar, í Norðursjó, tóku tvær breskar Typhoon-þotur við eftirliti með rússnesku vélunum.

Norski flugherinn tók þessar myndir af rússneskum vélum undan strönd Noregs laugardaginn 7. mars 2020.
Norski flugherinn tók þessar myndir af rússneskum vélum undan strönd Noregs laugardaginn 7. mars 2020.

Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar BarentsObserver, sagði sunnudaginn 8. mars að kafbátaleitarvélum Rússa væri almennt flogið yfir Barentshaf og nyrsta hluta Noregshafs. Það hefði á hinn bóginn gerst 26. og 27. febrúar að vélunum hefði verið flogið mun lengra í suður yfir Noregshafi en venjulega.

Tu-142 kafbátaleitarvélar rússneska Norðurflotans eru flotagerð af Tu-95 langdrægu sprengjuvélunum. Meginhlutverk Tu-142 er að leita að NATO-kafbátum og stunda rafeindanjósnir.

Flugferð Tu-142 vélanna laugardaginn 7. mars tók meira en 13 klukkustundir og þær fengu eldsneyti á flugi úr Il-76 eldneytisvél að sögn upplýsingadeildar Norðurflotans.

MiG-31 þotan fylgdi leitarvélunum aðeins hluta leiðar þeirra og ekki suður í Norðursjó.

BarentsObserver segir ekki vitað hve margir NATO-kafbátar séu nú á sveimi í Norður-Atlantshafi. Flotaskip frá nokkrum NATO-ríkjum eru um þessar mundir í Noregi með vistir og búnað vegna fjölþjóða heræfingarinnar Cold Response í Norður-Noregi fram til 18. mars.

Á síðunni segir að nú unnið að breytingum á skipulagi norska flughersins. F-16 vélar verði í viðbragðsstöðu fyrir NATO í Bodø-flugstöðinni til 2022. Þá verði nokkrar F-35 þotur til taks í Evenes-flugstöðinni í norðurhluta Noregs en meginhluti F-35 vélanna verði í Ørland-flugstöðinni.

Frá og með árinu 2025 hættir norski flugherinn að nota F-16 vélarnar og nýi 52 véla floti F-35 þotnanna verður að fullu tiltækur.

Nú hafa Norðmenn fengið í sínar hendur 15 F-35 þotur og eru fjórar þeirra um þessar mundir við loftrýmisgæslu NATO frá Keflavíkurflugvelli.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …