
Norska stórþingið samþykkti þriðjudaginn 15. nóvember víðtæka langtímaáætlun í varnarmálum. Í henni felst meðal annars að Norðmenn auka útgjöld sín til þessara mála. Þá verður meginstefnunni breytt á þann að í henni felst að nú er höfuðmarkmiðið að herinn stuðli á „trúverðugri fælingu“.
Norðmenn eru nú hópi þeirra 10 NATO-þjóða sem verja hæsta hlutfalli vergrar landsframleiðslu til varnarmála. Á næstu 20 árum er markmiðið að útgjöld ríkisins til hermála aukist um 165 milljarða n.kr. Í áætluninni felst einnig að unnið sé að sparnaði og fé fært á milli útgjaldaliða.
Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra úr Hægriflokknum, segir að í nýju áætluninni felist „sögulegt átak“.
„Samþykktin jafngildir nýju upphafi og nýjum tímum fyrir herinn,“ segir ráðherrann í fréttatilkynningu.
Haakon Bruun-Hansen, yfirmaður norska hersins, fagnar samþykkt þingsins og að stjórnmálamenn skuli reiðubúnir að auka fjárveitingar til hersins á tímum sem hann segir einkennast „af óvissu í stjórnmálalífinu allt í kringum okkur“.
Meðal átakamála við afgreiðslu áætlunarinnar var framtíð flugstöðvarinnar á norðlægu eyjunni Andøya. Henni verður lokað og þar með fækkar störfum í litlu sveitarfélagi við flugvöllinn um nokkur hundruð. Þá er ætlunin að strand-korvettum verður lagt og nokkrum herbúðum lokað.
Á útgjaldahliðinni munar mest um 52 nýjar F-35 orrustuþotur, fjóra kafbáta, nýjar eftirlitsflugvélar og aukið fé til eftirgrennslanaþjónustu hersins.
Anniken Huitfeldt, talsmaður Verkamannaflokksins í varnarmálum, minntist þess í þingumræðum um áætlunina að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefði lýst efasemdum í kosningabaráttunni um réttmæti þess að taka þátt í aðgerðum NATO ef evrópsku aðildarríkin stæðu ekki undir hæfilegum hluta kostnaðar við varnir bandalagsins. Fagnaði hún því að langtímaáætlunargerðinni hefði verið lokið þegar Trump náði kjöri. Norðmenn greiddu næstmest til varnarmála innan NATO á eftir Bandaríkjamönnum.
Í ljósi ógnar frá Rússlandi og vaxandi áhuga á norðurslóðum ætla Norðmenn að festa fé í auknu eftirliti og vöktun í nyrsta hluta landsins.
„Herinn á að geta framkvæmt dagleg verkefni á heimavelli, stuðlað að trúverðugri fælingu og að því að Noregur skipti strategísku mál á norðurslóðum,“ segir í skýrslunni að baki áætluninni. Þar er einnig áréttað: „Norsk öryggis- og varnarstefna miðar að því að tryggja fullveldi Noregs, landsyfirráð og svigrúm í stjórnmálum.“
Herinn skal hafa nægilegt afl til að fæla hugsanlega árásaraðila frá hættulegum áformum þeirra.
Svíar ákváðu fyrir skömmu að flýta framkvæmd áforma um fasta viðveru herafla á Gotlandi. Ákvörðunina mátti rekja til ágengni Rússa. Danski sendiherrann Peter Taksøe-Jensen skilaði dönsku ríkisstjórninni álitsgerð í maí 2016 þar sem fram kom að Danir væri eina Eystrasaltsþjóðin sem ekki hefði ákveðið að auka útgjöld sín til varnarmála. Þetta breyttist á Varsjárfundi ríkisoddvita NATO-ríkjanna í júlí 2016 þegar Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, tilkynnti að Danir stefndu að raunútgjalda hækkun til varnarmála í nýju samkomulagi flokkanna um varnarmál sem á að ganga í gildi árið 2018.
Í skýrslum NATO segir að Danir verji 1,17% af VLF til varnarmála en Norðmenn 1,54% af VLF. Hæst er hlutfallið í Bandaríkjunum 3,61%, síðan koma Grikkland, Bretland, Eistland og Pólland þar sem hlutfallið er alls staðar 2% eða meira í samræmi við ákvarðanir á vettvangi NATO.
Heimild: Jyllands-Posten