
Norska strandgæslan tók skipi Greenpeace og 35 manna áhöfn þess í Barentshafi fimmtudaginn 17. ágúst eftir að stofnað hafði verið til mótmælaaðgerða innan öryggissvæðis umhverfis Statoil-borpall.
Borpallurinn er á svonefndu Korpfjell-svæði sem er nyrsta svæðið í Barents-hafi þar sem leit að olíu og gasi hefur hafist. Pallurinn er á 74° norður um 415 km frá nyrsta tanga Noregs.
Umhverfis pallinn, Songa Enabler, er 500 m öryggissvæði og fóru aðgerðasinnar Greenpeace inn á það á kajökum.
Norska lögreglan skipaði mótmælendunum að yfirgefa öryggissvæðið með vísan til refsiákvæða norsku olíulaganna. Þegar Greenpeace neitaði að fara að þessum fyrirmælum fór lögreglan í Tromsø þess á leit við strandgæsluna að hún léti til skarar skríða. Menn úr áhöfn strandgæsluskipsins KV Nordkapp fóru skömmu síðar um borð Arctic Sunrise, skip Greenpeace, tóku stjórn þess í sínar hendur og handtóku 35 manna áhöfn þess.
Í fréttatilkynningu lögreglunnar segir að Statoil hafi heimild til að bora á svæðinu, leyfi norskra yfirvalda. Með því að neita að yfirgefa öryggissvæðið umhverfis borpallinn hafi fólk í smábátum frá Arctic Sunrise brotið norsk lög.
Varðskipið fylgdi Arctic Sunrise til hafnar í Tromsø og voru skipin væntanleg þangað aðfaranótt sunnudags 20. ágúst
Truls Gulowsen, forystumaður Greenpeace í Noregi, telur strandgæsluna ekki hafa heimild til að taka skipið og handtaka áhöfn þess. Menn megi að alþjóðlegum hafréttarlögum mótmæla á hafi úti, það tengist frelsi til siglinga. Greenpeace hafi stofnað til mótmæla gegn olíuborunum í íshafinu þar sem þeir megi mótmæla að alþjóðalögum. Norska ríkisstjórnin hafi ekki lagaheimild til að brjóta gegn þeim rétti. Hún ætti að hafa meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum í stað þess að ganga erinda ríkisfyrirtækisins Statoil sem sýni ábyrgðarleysi. Norska stjórnin brjóti gegn skyldum Norðmanna samkvæmt stjórnarskrá þeirra og Parísarsamkomulaginu um aðgerðir gegn hlýnun jarðar.
Arctic Sunrise hefur áður verið í fréttum vegna aðgerða Greenpeace í Barentshafi. Rússneska strandgæslan tók skipið og handtók áhöfn þess í september 2013 til varnar olíuborpalli rússneska fyrirtækisins Gazprom austast í Barentshafi. Þá var skipið dregið til Múrmansk þar sem það var í níu mánuði. Af Greenpeace-mönnum voru 28 um borð í skipinu þá og tveir blaðamenn. Fólkið sat tvo mánuði í fangelsi, fyrst í Múrmansk og síðan í St. Pétursborg. Að lokum fengu þau sakaruppgjöf.
Arctic Sunrise hefur ekki verið notað til mótmæla frá 2013 fyrr en nú. Var það tekið til viðgerða eftir dvölina í Múrmansk.
Talið er að Statoil láti bora á palli sínum á Korpfjell-svæðinu fram í byrjun september. Svæðið skiptir miklu fyrir Statoil og eru miklar vonir bundnar við að þar finnist olía. Fyrirtækið segir að því aðeins verði unnt að viðhalda núverandi framleiðslustigi á norska landgrunninu fram til 2030 og síðar ef verulegt magn af nýrri olíu finnist í ár.
Statoil hefur aldrei látið meira að sér kveða við borun í Barentshafi en í ár.
Heimild: Thomas Nilsen, Barents Observer.