Home / Fréttir / Norska strandgæslan fær ekki nýjar þyrlur

Norska strandgæslan fær ekki nýjar þyrlur

Kynningarmynd af NH90 þyrlum.
Kynningarmynd af NH90 þyrlum.

Innan norsku strandgæslunnar óttast menn að hún fái ekki viðunandi þyrlukost fyrr en eftir nokkur ár. Haakon Bruun-Hanssen, yfirmaður norska heraflans, leggur til í nýrri skýrslu að allar nýjar þyrlur sem Norðmenn hafa pantað verði nýttar í þágu hersins og á freigátum hans. Upphaflega var ráðgert að sex af alls 14 nýjum NH90 þyrlum Norðmanna yrðu til afnota fyrir strandgæsluna.

Bruun-Hanssen segir að brýnt sé að nýju þyrlunnar verði nýttar til kafbátavarna.

„Staðan er nú sú að við verðum að endurmeta hvernig þessi fjárfesting nýtist okkur best og tilaga mín er að við forgangsröðum í þágu freigátnanna. Þyrlurnar bera vopn sem ráða úrslitum um hæfni freigátnanna til að finna og granda kafbátum,“ segir í fréttatilkynningu frá yfirherstjórninni föstudaginn 2. febrúar.

Þegar árið 2001 pöntuðu norsk yfirvöld nýjar þyrlur. Afhendingu þeirra átti að verða lokið árið 2008 en verulegar tafir hafa orðið á henni og nú tíu árum síðar hafa aðeins fjórar þyrlur verið afhentar.

Um er að ræða meðalstórar, tveggja hreyfla og fjölhæfar þyrlur til hernaðarlegra nota sem smíðaðar eru af ítalska fyrirtækinu NHIndustries. Þær eiga að koma í stað Lynx þyrlna strandgæslunnar sem teknar voru úr notkun árið 2014. Kostnaður við þyrlukaupin er nú talinn nema næstum 7 milljörðum n.kr. eða 91 milljarði ísl. kr.

Þyrlukaupin eru harðlega gagnrýnd. Tæknileg vandamál við rekstur vélanna hafa verið mikil og sérfræðingar segja að þær skorti grunnhæfni til að þær megi nýta til fulls við erfiðar aðstæður undan langri strönd Noregs.

Bruun-Hanssen segir að finna verði aðra lausn fyrir strandgæsluna. Hann segir að hún geti falist í leigu á þyrlum og notkun ómannaðra loftfara, dróna.

Heimild: Barents Observer

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …