Home / Fréttir / Norska stórþingið samþykkir þreföldun stöðva fyrir Bandaríkjaher – úr 4 í 12

Norska stórþingið samþykkir þreföldun stöðva fyrir Bandaríkjaher – úr 4 í 12

Bandarísk orrustuþota á flugvelli herstöðvarinnar á Andøya við Norður-Noreg.

Norska stórþingið samþykkti fimmtudaginn 30. maí að veita Bandaríkjaher ótakmarkaðan aðgang að nokkrum hernaðarlegum svæðum til viðbótar við það sem áður var, einkum í norðurhluta Noregs. Það er mat norsku leyniþjónustunnar að Norðmenn eigi að vera samferða Svíum og Finnum. Því sjónarmiði var hreyft í umræðum um málið hvort stefnunni um lágspennu á norðurslóðum væri stefnt í hættu.

Fulltrúar stjórna Noregs og Bandaríkjanna rituðu í febrúar 2024 undir breytingar á eldri samstarfssamningi um varnarmál milli ríkjanna til að heimila Bandaríkjaher aðgang að átta umsömdum svæðum á norsku landi umfram það sem áður var.

Í Norður-Noregi er um að ræða Andøya og Bardufoss flugherstöðvarnar, Setermoen herstöðina (auk svæðis til skotæfinga) og Osmarka háfjallaaðstöðu í sveitarfélaginu Evenes.

Afgreiðsla stórþingsins

Í þinginu studdu alls 85 þingmenn viðbótarsamninginn fimmtudaginn 30. maí. Þetta voru þingmenn Verkamannaflokksins, Hægriflokksins, Miðflokksins, Framfaraflokksins, Frjálslynda flokksins, Græningja og Kristilega demókrataflokksins. Þingmenn Sósíalíska vinstriflokksins (SV) og Rauða flokksins greiddu atkvæði gegn samningnum með 12 atkvæðum.

Áður en þessi breyting varð á samstarfssamningnum frá 2022 hafði Bandaríkjaher aðgang að fjórum svæðum í Noregi, nú eru þau 12.

Í desember 2023 gerðu Svíar, Finnar og Danir sambærilega tvíhliða samstarfssamninga við Bandaríkjamenn.

Svíar heimila aðgang að 17 stöðvum (þar af eru fjórar í norðri), 15 stöðvar eru í Finnlandi (fimm í norðri) og þrjár í Danmörku (engin á Grænlandi eða Færeyjum).

Varnar- og utanríkismálanefnd sænska þingsins mun leggja tillögu sína um afgreiðslu samningsins fyrir sænska þingið 11. júní nk. og greidd verða atkvæði um málið 18. júní á þinginu.

Finnska ríkisstjórnin lagði tillögu um samninginn fyrir finnska þingið 30. maí sl.

Í nefndaráliti þingmanna SV og Rauðra í stórþinginu er varað við svo mikilli fjölgun á athafnasvæðum fyrir Bandaríkjaher í Noregi og annars staðar á Norðurlöndunum:

„Í tillögunni um að fjölga svæðunum í Noregi um átta felst þreföldun á bandarískum herstöðvum í Noregi. Þegar á heildina er litið og fjölda fyrirhugaðra stöðva Bandaríkjanna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi mun bandarískum herstöðvum fjölga frá einni stöð á Íslandi og einni á Grænlandi í að þær verði alls 47 á Norðurlöndunum – af þeim verða 15 fyrir norðan heimskautsbaug.

Fjölgunin í Noregi samræmist ekki því sem segir í norsku herstövayfirlýsingunni frá 1949 um að ekki skuli heimila stöðvar fyrir orrustusveitir erlendra ríkja á norsku landi á friðartímum. Með vísan til þess fara þeir sem standa að þessu áliti þess á leit við þingið að það hafni ákvæðum samningsins frá 2. febrúar 2024 um ný umsamin svæði.“

Þá telja nefndarmennirnir að samningurinn feli í sér slíkt inngrip erlends ríkis á norsku landi að það þurfi aukinn meirihluta á þingi til að samþykkja hann. Hvorki nú né 2022 var ákvæði norsku stjórnarskrárinnar um aukinn þingmeirihluta við afgreiðslu mála beitt í þessum tilvikum

Í Svíþjóð og Finnlandi er krafist samþykkis tveggja-þriðju hluta þingmanna til að samningarnir við Bandaríkin hljóti afgreiðslu. Þá er einnig nauðsynlegt að breyta stjórnarskrám beggja ríkjanna.

Kjarnavopn

Í norsku þingnefndinni, varnar- og utanríkismálanefndinni, var einnig rætt um kjarnavopn á Norðurlöndum, og vildu SV, Rauðir og Kristilegir demókratar í nefndinni að efnt yrði til norræns samtals eða samráðs um samstarfssamningana við Bandaríkin og stefnumörkun um kjarnavopn.

Þingmennirnir í minnihluta nefndarinnar bentu á að í samningum Svía og Finna við Bandaríkjamenn væri ekki að finna ótvíræða fyrirvara gegn kjarnavopnum – og allir samningarnir ættu sameiginlegt (einnig sá norski) að veita mætti Bandaríkjamönnum rétt til að banna fulltrúum gistiríkisins að kanna hvað væri geymt á hluta umsömdu svæðanna.

Meirihlutinn í nefndinni, þingmenn Verkamannaflokksins, Miðflokksins og hægri flokkanna, benda á að í tvíhliða samningunum við norrænu ríkin sé að finna „ólík skilyrði og mismunandi leiðir ríkja til aðlögunar“. Norðmenn hafi ákveðið kjarnavopnastefnu sína með skýrslu til þingsins árið 1962. Þar liggi fyrir afstaða norskra stjórnvalda til geymslu kjarnavopna á norsku landi á friðartímum.

Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn standa nú að norsku ríkisstjórninni en Hægriflokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Nefndarmenn stjórnarflokkanna sögðu í áliti sínu að þeir teldu ekki eiga við að leggja til að mótuð yrði sameiginleg norræn stefna varðandi geymslu kjarnavopna á friðartímum.

Heimild: High North News

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …