Home / Fréttir / Norska stórþingið fjallar um auknar varnir í norðri

Norska stórþingið fjallar um auknar varnir í norðri

Frá NATO-æfingunni Cold Response 2022.

Utanríkis- og varnarmálanefnd norska stórþingsins fjallar nú um greinargerð sem ríkisstjórnin lagði fyrir hana föstudaginn 8. apríl um aðgerðir til að auka varnir Noregs á norðurslóðum. Ætlunin er að efla umsvif flotans, landhersins og upplýsingaöflun (njósnir) auk þess að auðvelda móttöku og stuðning við herafla frá bandalagsþjóðum, einkum í norðri.

„Innrás Rússa í Úkraínu hefur miklar afleiðingar þegar litið er til öryggis Noregs. Rússar hafa umtalsverðra öryggishagsmuna að gæta í norðri. Það hefur áhrif á Noreg og NATO. Það krefst meira framlags en áður af norskri hálfu að viðhalda áhrifum í næsta nágrenni okkar,“ sagði Odd Roger Enoksen, þáv. varnarmálaráðherra, þegar hann kynnti greinargerðina.

Í henni er almennt rætt um breytingar á öryggisstefnunni í ljósi árásar Rússa á Úkraínu og hvaða áhrif hún muni hafa á forgangsmál norsku ríkisstjórnarinnar í bráð og lengd.

Í greinargerðinni er einnig farið yfir fjárhagslega stöðu norska hersins um þessar mundir en ljóst er að auka verður fjárveitingar til hans strax á þessu ári enda tlkynnti ríkisstjórnin 1. apríl 2022 að hún ætlaði að veita 3 milljón NOK aukafjárveitingu til hersins í ár.

Úthaldsdögum herskipa og eftirlitsskipa verður fjölgað undan strönd Noregs og sérstaklega í norðri.

Ætlunin er að búa í haginn fyrir móttöku erlends herafla á hættustund með því að uppfæra sprengjuheld skýli fyrir flugvélar á völdum stöðum. Þar á meðal er flughervöllurinn á Andøya. Fyrir nokkrum misserum voru áform um að leggja hann niður. Nú hefur verið horfið frá því og þess í stað verður ráðist í endurbætur á vellinum. Verður hann framvegis til varanlegra afnota til að taka á móti herafla frá bandalagsþjóðum Norðmanna.

Þá verður aðstaða til sameiginlegra æfinga erlends og norsks herafla í Trøms-héraði bætt með nýjum byggingum og öðru.

 

Heimild: High North News

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …