
Norska öryggislögreglan, PST, birti árlegt hættumat sitt þriðjudaginn 30. janúar. Þar er enn og aftur bent á að Rússar séu þeir sem geti skaðað norska hagsmuni mest.
„Eins og áður er enn talið að mest tjón geti orðið af völdum rússneskra njósnara,“ segir í skýrslunni.
PST telur að leynilegir útsendarar í Noregi geti beitt mismunandi aðferðum til að undirbúa og framkvæma aðgerðir sem miði að því að hafa áhrif á ráðamenn með leynd við töku ákvarðana og einnig i því skyni að móta opinberar umræður. Í áhættumatinu segir: „Meðal annars kunna dulbúnir útsendarar að hafa samband við stjórnmálamenn, sérfræðinga, blaðamenn og starfsmenn ráðuneyta. Markmið þeirra er að skapa farvegi fyrir leynileg áhrif.“
Öryggislögreglan telur að stofnanir einstakra landa muni miðla upplýsingum á samfélagsmiðlum eða með markvissum leka til norskra eða alþjóðlegra fjölmiðla.
Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, segir að finnska njósnastofnunin, SUPO, hafi í ársskýrslu sinni fyrir 2016 orðið fyrst til þess á Norðurlöndunum að vekja máls á hættunni af misnotkun upplýsingamiðlunar. SUPO sagði að meðal þess sem erlendar njósnastofnanir legðu mesta áherslu á í Finnlandi væri að komast að því hvað Finnar gerðu til að vernda sig gegn aðgerðum erlendra ríkja á sviði upplýsingamiðlunar.
Nilsen segir að sama eigi við um Noreg og Finnland að erlendar njósnastofnanir hafi mikinn áhuga á norðurslóðastefnu ríkjanna. SUPO segir að áhuginn í Finnlandi hafi beinst að formennsku Finna í Norðurskautsráðinu. PST segir að norðurslóðir og Norður-Íshaf veki mestan áhuga þeirra sem skipuleggi njósnastarfsemi gegn Noregi.
Í skýrslu PST segir að versnandi samskipti milli Rússa og Vesturlanda á sviði öryggismála valdi því að njósnir Rússa um norsk varnarvirki skipti öryggishagsmuni Norðmanna verulegu máli. Sérstök ástæða sé til að huga að gæslu norsks viðbúnaðar nálægt rússnesku landsvæði.
PST varar við því að erlendar njósnastofnanir kunni að leita eftir því hjá Norðmönnum að þeir útvegi sér mikilvægar upplýsingar.
„Nú á þessu ári eins og áður munu erlendar njósnastofnanir einnig reyna að ráða til starfa fólk í Noregi sem hefur aðgang að mikilvægum norskum verðmætum sem verður að vernda,“ segir PST og bætir við að nokkur ríki hafi mannskap í Noregi með það sem höfuðverkefni að fá fólk til starfa.
PST segir að njósnarar nýti sér ráðstefnur um norðurslóðamál, öryggismál, tæknimál og nýsköpun til að koma á slíkum tengslum við Norðmenn.
Rússneska sendiráðið í Osló brást við áhættumati PST fimmtudaginn 1. febrúar með tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem ráðist er á norska fjölmiðla fyrir að birta „tilhæfulausa áróðurstilburði til þess eins að magna Rússagrýlu“. Sendiráðið gagnrýnir sérstaklega frétt sjónvarpsstöðvarinnar TV2 um mat PST og lýsir henni sem „hugarburði Rússahatara“.