
Hér var vitnað í norsku vefsíðuna Barents Observer sem eins og t.d. Newsweek og Politico taldi í frétt um FOKUS 2023, ársskýrslu njósnastofnunar norska hersins, að þar væri gefið til kynna að kafbátar og herskip Norðurflota Rússa væru nú að nýju á hafi úti með skammdræg kjarnavopn um borð.
Væri þetta raunin markaði það gjörbreytingu á stefnu Rússa sem lýstu því opinberlega yfir 1991 að þeir hefðu fjarlægt skammdræg kjarnavopn af herskipum sínum og sett þau í vopnabúr á landi. Þetta væri gert með vísan til heiðursmannasamkomulags milli forsetanna Mikhaíls Gorbatsjovs og George Bush.
Á Barents Observer vefsíðunni fimmtudaginn 16. febrúar er vitnað í upplýsingafulltrúa njósnastofnunarinnar, Ann-Kristin Bjergene sem segir: „Textann mátti túlka á fleiri en einn veg.“
Stofnunin segir að í skýrslunni komi fram að mikilvægi langdrægra kjarnavopna í eigu Rússa væri að aukast.
Upphaflegri efnisgrein í skýrslunni hefur nú verið breytt og þar er nú áréttað að ekki hafi orðið nein breyting á vopnabúnaði herskipa, það er ofansjávarskipa.
Nú segir njósnastofnunin:
„Stríðið í Úkraínu hefur leitt til þess að hefðbundinn herafli Rússa hefur veikst. Af þessu leiðir að mikilvægi langdrægra rússneskra vopna hefur aukist. Í þessu samhengi gegna langdrægir kafbátar Norðurflotans lykilhlutverki vegna þess að þeir eru búnir kjarnavopnum. Við sjáum engar breytingar á vopnabúnaði rússneskra ofansjávar herskipa í Norðurflotanum.“
Ein setning snýr að skammdrægum kjarnavopnum í uppfærðu útgáfu skýrslunnar:
„Af skammdrægum kjarnavopnum stafar alvarlega hætta sé litið til ýmissa aðgerðasviðsmynda sem kunna að ná til NATO landa.“