Home / Fréttir / Norsk hvítbók um norðurslóðir

Norsk hvítbók um norðurslóðir

 

Erna Solberg og Ine Eriksen Søreide
Erna Solberg og Ine Eriksen Søreide

Norska ríkisstjórnin kynnti föstudaginn 27. nóvember hvítbók með norðurslóðastefnu undir fyrirsögninni: Fólk, tækifæri og norskir hagsmunir á norðurslóðum. Þar er lögð áhersla á fjárfestingar í norðurhéruðum Noregs og aukin tækifæri fyrir ungt fólk. Þar er einnig lögð þung áherslu á að á fáeinum árum hafi orðið dramatískar breytingar á norðurslóðum og samskipti Norðmanna við voldugan nágranna sinn í austri, Rússa, gjörbreyst.

„Óryggisástandið í heiminum er orðið flóknara og spenna hefur aukist,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, þegar hún kynnti hvítbókina.

Norska ríkisstjórnin lagði síðast fram hvítbók um norðurslóðamál árið 2011. Þá var litið á Rússa sem samstarfsaðila um margvísleg sameiginleg stórverkefni. Jafnaðarmaðurinn Jens Stoltenberg var þá forsætisráðherra og Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra. Hann kynnti þá stefnu um að samskiptin við Rússa yrðu stig af stigi opnari og einlægari milli þeirra og norrænu ríkjanna.

Þegar Ine Eriksen Søreide, núverandi utanríkisráðherra Noregs, kynnti nýju hvítbókina sagði hún:

„Veröldin hefur breyst frá því að síðasta norska hvítbókin um norðurslóðir var gefin út fyrir níu árum. Það var nauðsynlegt laga skilning okkar að nýjum lykiláskorunum og tækifærum í norðri. Það er einkum staðan í öryggismálum sem hefur breyst umtalsvert frá árinu 2011og þörf var á nýjum greiningum. Vinna við þær hefur verið mikilvægur þáttur við gerð nýju hvítbókarinnar.“

Utanríkisráðherrann sagði að Rússar sýndu nú meiri hörku en áður og nýir gerendur hefðu komið til sögunnar. Að hennar mati er brýnast fyrir ríkisstjórnina að gæta öryggis á norðurslóðum þegar litið sé til ábyrgðar hennar á öryggismálunum í heild.

Hvítbókin er 193 bls. og segir á vefsíðunni Barents Observer að þar sé litið til margra málefna. Fyrsti kafli bókarinnar sé hins vegar um þjóðaröryggi.

Höfundarnir segja: „Aukin hervæðing Rússa og endurnýjun heraflans kann að fela í sér beina ögrun við öryggi Noregs og bandalagsríkja landsins“.

Í bókinni er jafnframt bent á að ekki allt sé neikvætt, enn vinni Norðmenn og Rússar saman að fiskveiðimálum, kjarnorkuöryggi og umhverfismálum og í fjölþjóðasamtökum eins og Norðurskautsráðinu og Barentshafsráðinu.

Samfélagið í norðri

Þótt hér sé minnst á öryggismál þegar sagt er frá hvítbókinni ber hún með sér eins og heiti hennar gefur til kynna að fyrst og síðast vakir fyrir norsku ríkisstjórninni nú að styrkja forsendur byggðar og búsetu í Norður-Noregi.

Erna Solberg segir að öryggi Noregs í norðri verði best gætt með því að tryggja störf og hagvöxt í nyrsta hluta landsins.

Meðal tillagna í hvítbókinni er að komið verði nýsköpunarsjóði Norður-Noregs í samvinnu ríkisins og fjárfesta í heimabyggð með það fyrir augum að ýta undir frumkvöðla og framtak þeirra.

Utanríkisráðherrann sagði að við söfnun upplýsinga vegna ritunar hvítbókarinnar hefði þau boð helst borist til stjórnvalda í Osló að það skorti fyrst og síðast fé til fjárfestinga í norðri. Með nýjum fjárfestingarsjóði sem stjórnað yrði frá Norður-Noregi ætti að koma til móts við þessi sjónarmið og óskir. Þá yrði einnig starfræktur í þrjú ár sérstakur nýsköpunarsjóður í þágu ungra frumkvöðla.

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …