
Í ljósi óvissu vegna Rússlands og Bandaríkjanna leggja ríkisstjórnir Norðurlandanna meiri áherslu en ella á hernaðarlegt samstarf sitt innan ramma Nordefco. Samvinnan innan NATO er þó þungamiðjan. Um það er samt ekki rætt upphátt í Finnlandi og Svíþjóð, segir Kristian Mouritzen, blaðamaður Berlingske Tidende mánudaginn 14. janúar í tilefni af fundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna.
Ráðherrarnir hittust á árlegri ráðstefnu sænsku samtakanna Folk och Försvar í sænska bænum Sälen. Þar var Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Dana. Segir í blaðinu að þetta sé í fyrsta sinn sem danskur varnarmálaráðherra sæki þessa ráðstefnu og hafi myndarlegur hópur embættismanna verið með honum í för.
Innan ramma Nordefco hefur til dæmis verið samið um dreifingu á hernaðarlegum ratsjármyndum sem sýna ferðir flugvéla. Aldrei fyrr hefur verið samið um slík skipti milli landa sem eru í NATO og utan NATO.
Þá geta Svíar og Danir flogið hervélum sínum yfir landsvæði hvor annars með fimm til tíu mínútna fyrirvara. Unnið er að sambærilegum samningi milli sænska og danska flotans. Þá er stefnt að því að Finnar og Svíar taki þátt í fleiri NATO-æfingum.
Danski varnarmálaráðherrann fer ekki leynt með skoðun sína á mikilvægi þessa samstarfs og lýsir því sem „nýrri norrænni vídd í NATO“. Claus Hjort Frederiksen segir:
„Stefna Svía er að verða eins virkir þátttakendur í aðgerðum á vegum NATO og þeir geta, í því ljósi má segja að eina sem skorti sé formleg aðild að NATO. Ég segi oft í gríni að samband Svía við NATO sé eins og samband Dana við evruna. Við eltum evruna í gegnum þykkt og þunnt. Eina sem við viljum ekki eru pólitísk áhrif. Það segir talsvert um furðulega stöðu málsins sem við lýsum hér.“
Blaðamaðurinn minnir á að ESB-þjóðirnar Svíar og Finnar séu ekki í NATO. Þá séu NATO-þjóðirnar Íslendingar og Norðmenn ekki í ESB. Hvað sem þessu líði sé samstaða um að norræna víddin sé mikilvæg í öryggismálum.
„Landafræðin tengir okkur saman. Landfræðileg skilyrði eru ekki alls staðar eins. Aðstæður við landamæri okkar eru ólík og við höfum ólíka afstöðu til ESB og NATO. Landsvæði okkar skapa hins vegar forsendur fyrir sameiginlegri hernaðarlegri stefnu og það sem greinir okkur að styrkir aðeins heildina. Við höfum gagnkvæma hagsmuni af vöruflutningaleiðum, aðgangi að höfnum og nothæfum innviðum. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að öryggi ríki á Norðurlöndum,“ sagði Per Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, á ráðstefnunni.
Fyrir utan hervæðingu Rússa og áreiti þeirra í garð Úkraínu og Eystrasaltslandanna hafa forystumenn í norrænum öryggismálum einnig áhyggjur af þróuninni í Bandaríkjunum. Blaðamaðurinn segir að flestir haldi sér þó meira til hlés í gagnrýni á stöðu mála í samskiptunum við Bandaríkin en danski varnarmálaráðherrann.
Minnt er á að afsögn James Mattis úr embætti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hafi valdið óróa. Norrænu ráðherrarnir hafi litið á hann sem stuðningsmann norræns samstarfs í hermálum. Þá séu misvísandi frásagnir af afstöðu Bandaríkjastjórnar til Sýrlands og Afganistan einnig áhyggjuefni.
„Hvað varðar Sýrland þá vitum við ekki eftir tvær vikur [frá því að Trump lýsti brotthvarfi bandarískra hermanna frá Sýrlandi] hver staðan raunverulega er. Það eitt er til þess fallið að vekja óvissu í kerfunum. Við verðum að fá vitneskju um langtíma áætlanir og nú heyrum við talað um að hugsanlega verði Bandaríkjamenn kallaðir heim frá Afganistan. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni,“ segir Claus Hjort Frederiksen.
„Það vekur einnig áhyggjur hjá mér að Bandaríkjaforseti segir að honum líki ekki við fjölþjóðlegar stofnanir. Fyrir lítið land felst í því blessun að til séu fjölþjóðlegar stofnanir og að Danir – lítil þjóð – þurfi ekki að sigla á milli stórveldanna, Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands og Frakklands. Þess vegna hef ég áhyggjur af árásum á það sem fjölþjóðlegt er,“ segir danski varnarmálaráðherrann.
Mönnum stendur ekki heldur á sama um Rússa. Ekki síst þegar litið er til aukinna hernaðarumsvifa þeirra á norðurskautssvæðinu, þar sem ágreiningur er milli norrænna landa um mörk yfirráðasvæða, en einnig á Eystrasalti þar sem Rússar reyna stöðugt á viðbúnað Norðurlandanna með skipum og flugvélum, annaðhvort með beinum yfirgangi á svæðum þeirra eða ögrunum í lofti eins og þegar flogið er í áttina að Borgundarhólmi og snúið af leið á síðasta augnabliki. „Jafnvel með þungum sprengjuvélum,“ hefur blaðamaður Berlingske eftir heimildarmanni sínum.
Blaðamaðurinn segir að ekki fagni því allir innan NATO að Norðurlöndin auki samstarf sitt. Í Austur- og Suður-Evrópu ríki tortryggni í garð samstarfs við Svía og Finna, þeir séu ekki í bandalaginu og njóti því ekki verndar samkvæmt 5. gr. NATO-sáttmálans um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll.
Í lok greinar sinnar vitnar blaðamaðurinn til heimildarmanna sem segja að það raski ró stjórnvalda í nokkrum löndum að Finnar og Svíar tengist NATO svo náið án þess að gera það pólitískt.