Home / Fréttir / Norrænir ráðherrar hitta Sergei Lavrov í Arkhangelsk

Norrænir ráðherrar hitta Sergei Lavrov í Arkhangelsk

Frá norðurslóðaráðstefnunni í Arkhangelsk.
Frá norðurslóðaráðstefnunni í Arkhangelsk.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs og Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, hittu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í kvöldverði í tengslum við alþjóðlega norðurslóðaráðstefnu í Arkhangelsk í Rússlandi miðvikudaginn 29. mars. Ætlunin var að ráðherrarnir ræddu samskiptin við Rússland, samvinnu á norðurslóðum, öryggismál og helstu álitamál á alþjóðavettvangi að sögn utanríkisráðuneytisins.

Norrænu utanríkisráðherrarnir þrír hafa ekki heimsótt Rússland á þeim þremur árum sem liðin eru frá innlimun Rússa á Krímskaga fyrir þremur árum. Børge Brende hefur setið sem utanríkisráðherra síðan í október 2013. Hinir ráðherrarnir hafa setið mun skemur.

Fyrir fundinn með Lavrov sagði norski utanríkisráðherrann: „Norðurslóðir og samvinna á heimsskautasvæðinu skipta mjög miklu fyrir Norðmenn. Rússar eru mikilvægur samstarfsaðili og gerandi á norðurslóðum og ráðstefnan í Arkhangelsk er góð umgjörð til að halda áfram pólitískum viðræðum við Rússa um sameiginleg málefni.“

Rússar áttu von á Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, til Moskvu síðar í vikunni en för hans þangað hefur verið frestað vegna þess að ákveðið var að boða til utanríkisráðherrafundar NATO-ríkjanna í Brussel föstudaginn 31. mars. Var fundartímanum flýtt með skömmum fyrirvara til að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gæti setið hann. Tillerson hefur  á prjónunum að heimsækja Sergei Lavrov í Moskvu í apríl.

Breskur utanríkisráðherra hefur ekki verið í Moskvu síðan 2012 þegar Willam Hague hélt þangað. Breska utanríkisráðuneytið sagði að för Johnsons til Moskvu væri ekki til marks um að samskipti rússneskra og breskra stjórnvalda væru „orðin venjuleg“.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, situr ráðstefnuna í Arkhangelsk og er ráðgert að hann hitti Vladimír Pútín Rússlandsforseta fimmtudaginn 30. mars.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …