
Árlegur sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna var haldinn í Örnsköldsvik í Svíþjóð dagana 22.-23. maí. Finnska ríkisútvarpið segir að á fundinum, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti, hafi meðal annars verið rætt um stöðu í löndum eins og Sýrlandi og Norður-Kóreu, Eystrasaltssvæðinu og Rússlandi.
Í fyrri viku rituðu varnarmálaráðherrar Finnlands og Svíþjóðar þríhliða samkomulag um varnarsamstarf við Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Var það í fyrsta sinn sem slíkt samkomulag er undirritað en áður höfðu Finnar annars vegar og Svíar hins vegar gert tvíhliða samninga um varnarmál við Bandaríkjamenn.
Norrænu forsætisráðherrarnir hittust í sama mund og sænska ríkissjórnin hóf aldreifingu á 20 bls. bæklingi til þjóðarinnar um viðbrögð á hættu- og stríðstímum.
Fréttamaður finnska ríkisútvarpsins, YLE, spurði Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, hvort stjórn hans hefði áform um gerð og dreifingu samskonar bæklings í Finnlandi. „Það eru engin áform um að dreifa svona bæklingi,“ svaraði Sipilä.
Stefan Löfven forsætisráðherra sagði við YLE að tilgangur bæklingsins væri að upplýsa þjóðina um hvernig hún ætti að bregðast við á hættustundu því að engin hernaðarógn steðjaði að henni.
Í fréttatilkynningu íslenska forsætisráðuneytisins um fundinn segir að forsætisráðherrarnir hafi meðal annars rætt „norrænt samstarf, stöðu alþjóðastjórnmála, þróun mála í Evrópu og öryggismál og 5G-væðingu Norðurlandanna“.
Í fréttatilkynningunni er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur:
„Norrænt samstarf byggist á traustum menningarlegum og samfélagslegum tengslum og samskipti þessara landa eru náin og mikil. Undirstaða allra okkar verkefna er að byggja á styrkleikum Norðurlanda sem felast í öflugri velferð og kröftugu atvinnulífi. Yfirlýsing okkar um að verða í fararbroddi í 5G-tækninni undirstrikar þá sýn að við ætlum okkur að verða gerendur í fjórðu iðnbyltingunni og nýta tæknina til að gera líf almennings betra, berjast gegn loftslagsbreytingum og tryggja að tæknin verði samfélaginu öllu til góðs. Samstarf landanna er mikilvægt til að ná því markmiði.“
Með 5G-tækninni er vísað til nýjustu útgáfu á þráðlausri tækni til dreifingar á upplýsingum og samskipta í gegnum síma. Með tækninni á enn að auka til muna hraða og viðbragðsflýti þráðlausra neta. Markmiðið er að þessi tækni fari jafnvel fram úr ljósleiðaratækninni í hraða.
Ætlunin er að innleiða 5G-tækni í skrefum á komandi árum. Þessi tækni er ólík 4G-tækninni meðal annars að því leyti að 4G tíðni er send úr háum turnum eða af toppum til að flytja boð langar leiðir. 5G-boð verða flutt um margar litlar stöðvar sem komið verður fyrir á ljósastaurum eða þakskeggjum.