Home / Fréttir / Norræna varnarsamstarfið þéttist – ný stefnumótun

Norræna varnarsamstarfið þéttist – ný stefnumótun

Norrænu varnarmálaráðherrarnir hittust Reykjavík í fyrri viku í boði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og ræddu um framtíðarsamstarf sitt í varnarmálum. Einnig er unnið að mótun nýrrar norrænnar varnarmálastefnu undir merki NORDEFCO, norræna varnarmálasamstarfsins.

Sagt er frá fundinum á vefsíðunni High North News (HNN).

„Á milli norrænu ríkjanna hefur myndast gagnkvæmt traust og trúnaður á grundvelli gamalgróinnar samvinnu sem er reist á virðingu fyrir sameiginlegum gildum og öryggishagsmunum. Við búum okkur nú undir að dýpka samvinnuna með nýrri vídd. NORDEFCO er viðbót sem styrkir NATO,“ sagði Pål Jonsson, varnarmálaráðherra Svía, við HNN.

Svíar hafa nú forystu meðal ráðherranna og þeir leiða norrænu stefnumótunina sem tekur mið af væntanlegri NATO-aðild Svíþjóðar.

„Í ljósi þess að ástand öryggismála versnar í nágrenni okkar verður norræna varnarmálasamstarfið sífellt mikilvægara. Þegar öll norrænu ríkin verða komin í NATO nýtist norræna varnarsamstarfið bandalaginu til fulls. Þess vegna er brýnt að Svíar verði sem fyrst aðilar að bandalaginu,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherrafundarins.

Ráðherrarnir ræddu einnig það sem þeir lýstu sem óstöðugu öryggisástandi í Evrópu og mætti rekja til stríðs Rússa á hendur Úkraínumönnum.

Ný langtímastefna norræna varnarsamstarfsins mun taka mið af stríðinu í Evrópu og fjölgun norrænna ríkja í NATO.

Pólitíska varnarmálastefnan verður útfærð á hernaðarlega sviðinu. Samvinna ríkjanna eykst, meðal annars varðandi móttöku liðsauka yfir N-Atlantshaf og hefur verið lagt til af yfirmönnum herja landanna fjögurra að höfnin í Narvík í Norður-Noregi verði nýtt í því skyni.

Í HNN er haft eftir Troel Lund Poulsen, starfandi varnarmálaráðherra Dana, að nauðsynlegt sé að herða eftirlit á norrænu yfirráðasvæði og efla samvinnu einstakra eininga. Þar með gætu norrænu ríkin aukið hlut sinn til gæslu öryggis á eigin svæði. Það yrði til að styrkja NATO og öryggi í norðurhluta Evrópu.

Undir lok maí kynnti danski varnarmálaráðherrann tillögu að samkomulagi um útgjöld til danskra varna næsta áratug og var hún formlega samþykkt af dönsku stjórnmálaflokkunum nú í lokaviku júnímánaðar. Þar er áhersla meiri en áður á varnir á Norður-Atlantshafi, Grænlandi og Færeyjum.

Í samkomulaginu felst að Danir verða virkari en áður á norrænum vettvangi varnarmála.

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, tilkynnti í tengslum við borræna varnarmálaráðherrafundinn í Reykjavík, að norski flugherinn mundi sinna loftrýmisgæslu frá Íslandi á árinu 2024. Í ár sendu Norðmenn fjórar F-35 orrustuþotur til gæslu frá Keflavíkurflugvelli þar sem þær voru í janúar og febrúar.

Norrænu varnarmálaráðherrarnir heimsóttu öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og kynntust starfseminni þar sem starfsmenn landhelgisgæslunnar sinna sinna í umboði utanríkisráðuneytisins.

Í för sinni á öryggissvæðið var ráðherrunum og samstarfsfólki þeirra einnig kynnt æfing og þjálfun sem þar fór fram undir forystu Breta í nafni Sameinuðu viðbragðssveitarinnar, Joint Expeditionary Force (JEF). Þar komu saman fulltrúar herja Norðurlanda, Eystrasaltslanda og Hollands undir æfingarheitinu Asgard 23. Landhelgisgæslan á einnig aðild að æfingunni sem snýst um stjórn á hættutímum og fjölþátta ógnir.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …