Home / Fréttir / Noregur: Viking Sky sjötta vélarvana farþegaskipið á einu ári

Noregur: Viking Sky sjötta vélarvana farþegaskipið á einu ári

Skemmtiferðaskipið Viking Sky vélarvana á Hustadvika.
Skemmtiferðaskipið Viking Sky vélarvana á Hustadvika.

Í norska blaðinu Aftenposten birtist fimmtudaginn 28. mars úttekt á skýrslum vaktstöðva við strendur Noregs sem sýnir að skemmtiferðaskipið Viking Sky sem lenti í sjávarháska undan strönd Noregs í fyrri viku sé sjötta farþegaskipið sem lendir í vandræðum vegna vélarbilunar við Noregsstrendur á einu ári. Frá 2017 hafa 114 skip orðið vélarvana við ströndina.

Oftar en einu sinni munaði litlu að illa færi. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði í fyrirspurnatíma í norska stórþinginu miðvikudaginn 27. mars að Norðmenn hefðu ekki getu og búnað til að takast á við stórslys vegna skemmtiferðaskips á norðurslóðum.

Sérfræðingar segja að eina leiðin til að draga úr hættu á stórslysi sé að taka ákvörðun um fækkun stórra skemmtiferðaskipa í nágrenni Noregs. Það verði aldrei unnt að búa þannig um hnúta með öryggisráðstöfunum að koma megi í veg fyrir stórslys við hættulegustu aðstæður.

Norska siglingamálastofnunin segir að þrýstingsfall á olíu hafi valdið því að vélar skemmtiferðaskipsins Viking Sky stöðvuðust laugardaginn 23. mars við Hustadvika við ströndina fyrir utan bæinn Molde. Talið er að þungur sjór og óveður hafi leitt til þess að olía hafi sveiflast þannig í tönkum skipsins að smurolíudælur fengu enga olíu. Þrátt fyrir að mælar sýndu nægt olíumagn í tönkunum hafi það ekki dugað við aðstæðurnar sem voru á Hustadvika.

Alls voru 1.373 manns um borð í Viking Sky þegar skipið varð vélarvana um klukkan 14.00 laugardaginn 23. mars. Um 470 farþegar voru fluttir í land með þyrlum. Fjórir voru lagðir á sjúkrahús.

Skipafélagið Viking Cruises samþykkir niðurstöðu siglingamálastofnunarinnar. Félagið segir að farið verði yfir allar öryggisreglur með vísan til þess sem fyrir liggur. Viking Sky var siglt frá Molde til Kristiansund þriðjudaginn 26. mars þar sem gert verður við það sem fór úrskeiðis í óveðrinu. Stefnt er að því að skipið hefji aftur reglulegar siglingar í apríl.

Lögreglurannsókn vegna atviksins í Hustadvika er ekki lokið.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …