Home / Fréttir / Noregur: Varar við rússnesku hernámi í Finnmörk

Noregur: Varar við rússnesku hernámi í Finnmörk

Norskir hermenn við strandvarnir.
Norskir hermenn við strandvarnir.

„Ástæða er til að óttast að það sama kunni að gerast og í austurhluta Úkraínu. Að maður sjá að hluta einkennalausa hermenn taka þátt í því sem ég kalla lágspennuátök,“ sagði Bjørn Domaas Josefsen, ritstjóri tímaritsins MilitærTeknikk við norska ríkisútvarpið NRK sunnudaginn 2. júlí.

Hér hafnar Domaas Josefsen sviðsmynd átaka þar sem rússneskir hermenn fara inn í Finnmörk í Noregi og Norður-Finnland á sama tíma og ráðist er á  strandhéruð Noregs af sjó. Hann segir þessa sviðsmynd úr sér gengna.

Þess í stað telur að pólitísk átök geti stigmagnast og leitt til hernáms hluta Noregs.

„Síðan er hernámið notað til að þrýsta á norsk stjórnvöld til að ná pólitískum markmiðum,“ sagði ritstjórinn við NRK.

Hann hefur skrifað grein í Befalsbladet, fagblað Sambands norskra herforingja, þar sem hann hvetur til þess að norski landherinn verði efldur til mikilla muna til að geta veitt andstöðu við hernámslið í Noregi og haldið því í skefjum þar til NATO sendir her bandamanna til að aðstoða Norðmenn við að gæta sjálfstæðis síns og frelsis.

„Hættan af hernámi af þessu tagi fyrir Norðmenn er að Noregur verði ekki talinn nægilega mikilvægur, einkum ef mikil spenna ríkir í Evrópu. Bandamenn okkar í NATO sendi þess vegna ekki lið okkur til hjálpar. Brot gegn Noregi af þessu tagi dugi ekki til að virkja 5. gr. Atlantshafssáttmálans,“ segir Josefsen.

Hedda Langemyr, framkvæmdastjóri Norges Fredsråd, Friðarráðs Noregs, telur hættulegt að fara að ráðum Domaas Josefsens og segir að hann boði „órökstudda svartsýni“ sem geti auðveldlega valdið miklum misskilningi.

„Það er mikill munur á því sem Rússar gera í Úkraínu og því sem þeir kunna hugsanlega að gera í Noregi. Á milli okkar og þeirra eru sögulega friðsöm landamæri og við verðum að hafa þá staðreynd í huga þegar við drögum ályktanir okkar,“ sagði Langemyr við NRK.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …