Home / Fréttir / Noregur: Varað við njósnum og undirróðri Rússa

Noregur: Varað við njósnum og undirróðri Rússa

Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra og Morten Haga Lunde hershöfðingi.
Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra og Morten Haga Lunde hershöfðingi.

Eftirgrennslanaþjónusta norska hersins, njósnastofnun Norðmanna utan eigin landamæra (NIS), birti hættumat ársins 2017 mánudaginn 6. febrúar. Þar er varað við víðtækum njósnum og undirróðri Rússa gagnvart Noregi.

„Ógnirnar í starfræna heiminum gegn pólitískum, hernaðarlegum og efnahagslegum skotmörkum aukast. Við teljum að njósnastarfsemin eigi eftir að verða víðtækar á þessu ári,“ segir í hættumati NIS. Nefnd eru þrír meginþættir sem ógna Noregi á þessu ári:

Stafrænar ógnir, einkum frá Rússum og Kínverjum.

Alþjóðleg hryðjuverk.

Hernaðarleg uppbygging í Rússlandi og fjölgun geópólitískra árekstra milli Rússa og Vesturlanda vegna innlimunar Krímskaga og óróans í Úkraínu.

Talið er að stafræn ógn frá Kínverjum beinist einkum að iðnaðarnjósnum. Fyrir Rússum vaki hins vegar að reyna að hafa áhrif á almenningsálitið og stefnu Vesturlanda.

Morten Haga Lunde, hershöfðingi og yfirmaður NIS, sagði við kynningu á skýrslunni:

„Rússar hafa um nokkurt árabil búið um sig á samfélagsmiðlum til að hafa áhrif á almenningsálitið og nota þá til að stunda upplýsingafölsun og dreifa rógi. Með vísan til aðgerða og getu Rússa teljum við að þeir ráði yfir upplýsingum sem þeir geti notað til að hafa áhrif á stjórnmálaferli og ákvarðanir annarra þjóða.“

Á vefsíðunni thelocal.no er bent á að dæmi sem talið er að sýni tilraunir Rússa til að móta umræður Norðmanna hafi birst strax og blaðið VG birti frásögn af hættumati NIS mánudaginn 6. febrúar. Í athugasemdum á netinu við frétt blaðsins birtist texti eftir greinilegan gervihöfund þar sem blaðið var sakað um að vera andvígt Rússum og þess vegna væri ekkert að marka það sem þar segði um rússnesk málefni. Athugasemdin var síðan fjarlægð.

Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra sagðist óttast að Rússar hefðu áhrif á konsingar á Vesturlöndum með undirróðri sínum. Það væri barnaskapur að ímynda sér að þetta gæti ekki einnig gerst í Noregi.

Í hættumatinu segir einnig að Rússar leggi áherslu á að þróa vopnatækni þrátt fyrir efnahagsvanda sinn auk þess að tryggja að þeir geti beitt herafla sínum eins víða og frekast sé kostur.

Lunde sagði að þetta hefði „áhrif á Noreg“ en það er mat NIS að Norðmenn þurfi ekki að óttast beina hernaðarógn frá Rússum um þessar mundir.

Norski hershöfðinginn benti á hættuna af því að rússneskir kafbátar sækja sífellt lengra til vesturs og erfiðara sé að fylgjast með þeim áður vegna nýrrar tækni.

Í norska ríkisútvarpinu NRK var sagt frá því að nýjustu kafbátar Rússa gætu sveimað næstum hljóðlaust um undirdjúpin. Því sé mjög erfitt að finna þá.

Lunde sagði að ekki lægju fyrir neinar vísbendingar um að Noregur væri sérstakt skotmark hryðjuverkamanna en þetta gæti breyst með skömmum fyrirvara.

Hann taldi varasamt að halda ekki uppi vörnum á stafrænum landamærum Noregs, það kynni að gera landið að „miðstöð“ fjarskipta milli ýmissa hópa hryðjuverkamanna. Nú hefur NIS ekki heimild til að fylgjast með miðlun starfrænna upplýsinga til og frá Noregi.

„Þetta veldur okkur miklum erfiðleikum og leiðir til þess að erfitt sé fyrir okkur að fylgjast með því sem er að gerast,“ sagði Lunde.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …